Gagnrýnir Frakka fyrir aðgerðaleysi

Nicolas Sarkozy, fyrrum forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy, fyrrum forseti Frakklands. AFP

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur gagnrýnt frönsk stjórnvöld harðlega fyrir að tryggja ekki nægilega vel öryggi borgara í landinu. 

Hann hefur jafnframt kallað eftir því að öllum útlendingum í landinu sem tengjast með einhverjum hætti róttækri íslamstrú verði vísað brott.

Yfir áttatíu manns létu lífið þegar stórum flutningabíl var ekið inn í mannþröng á strandgötunni í frönsku borginni Nice á fimmtudagskvöld.

85 manns liggja særðir á sjúkrahúsi, þar af átján alvarlega særðir.

Aðeins hafa verið borin kennsl á 35 lík.

Sarkozy sagðist í samtali við franska sjónvarpsstöð í morgun styðja að gripið yrði til hertari aðgerða gegn þeim múslimum sem aðhyllast íslamska öfgastefnu. Hann gagnrýndi frönsk stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi sitt.

„Lýðræðið má ekki vera veikt. Lýðræðið verður að segja: Við munum vinna stríðið,“ sagði Sarkozy.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu ódæðinu í Nice á hend­ur sér um helgina. Í yfirlýsingu sögðu þau að einn af „vígamönnum“ sam­tak­anna hefði framið ódæðið „til að bregðast við ákalli um að ráðast gegn sam­bands­ríkj­um sem eru að berj­ast [gegn Ríki íslams]“.

mbl.is