John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur vísað á bug ásökunum um að bandarísk stjórnvöld hafi tekið þátt í valdaránstilrauninni í Tyrklandi á föstudag. „Við teljum það ábyrgðarlaust að setja fram ásakanir um þátttöku Bandaríkjanna,“ segir hann í samtali við CNN.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sakað prédikarann Fethullah Gulen, sem býr nú í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, um að hafa staðið að baki tilrauninni. Hefur hann krafist þess að Gulen verði framseldur til Tyrklands. Gulen hefur hafnað ásökununum.
Kerry segir að bandaríska dómsmálaráðuneytið muni skoða allar vísbendingar sem tyrknesk stjórnvöld leggja fram í framsalsbeiðni sinni.
Suleyman Soylu, atvinnumálaráðherra Tyrklands, sakaði um helgina bandarísk stjórnvöld um að bera ábyrgð á tilrauninni.
Kerry ræddi símleiðis við starfsbróður sinn í Tyrklandi, Mevlut Cavusoglu, á laugardag og hvatti tyrknesk stjórnvöld til þess að sýna stillingu. Allar ásakanir um að Bandaríkin hefðu, með einum eða öðrum hætti, tekið þátt í valdaránstilrauninni væru ósannar með öllu og til skaða fyrir tvíhliða samband ríkjanna.
Kerry lýsti í gær einnig áhyggjum sínum yfir því að Erdogan myndi nota valdaránstilraunina misheppnuðu til þess að sölsa undir sig enn frekari völd og styrkja þannig valdastöðu sína.
Uppreisnarmennirnir þyrftu að svara til saka, en tyrknesk stjórnvöld mættu ekki ganga of langt og skerða réttindi þeirra sem ekki tóku þátt í tilrauninni. Þau ættu fremur að nota tækifærið til þess að styrkja lýðræðið í landinu og sameina þjóðina.
Í samtali við NBC sagði Kerry jafnframt að miklar og óhóflegar pólitískar hreinsanir Erdogans gætu skaðað samband Tyrklands við Evrópu, Atlantshafsbandalagið og umheiminn allan. „Við höfum hvatt þá til þess ganga ekki of langt,“ sagði hann.