Lögreglumennirnir þrír sem féllu fyrir hendi fyrrverandi sjóliðsforingjans Gavins Longs í Baton Rouge í gær hétu Montrell Jackson, Brad Garafola og Matthew Gerald.
Jackson var 32 ára svartur lögreglumaður sem var nýlega orðinn faðir. Hann hafði verið í lögreglunni í áratug. Hinn 8. júlí, nokkrum dögum eftir að svartur maður var skotinn til bana af lögreglunni í Baton Rouge, skrifaði Jackson á Facebook að hann væri þreyttur bæði líkamlega og andlega.
„Ég elska þessa borg, en ég spyr sjálfan mig hvort þessi borg elski mig. Þegar ég er í lögreglubúningnum fæ ég hatursfullt augnaráð og ef ég er ekki í búningnum líta sumir á mig sem ógn. Ekki láta hatur sýkja hjarta ykkar. Þessi borg verður og mun ná sér.“
Þá greinir staðarblaðið The Advocate frá því að Jackson hafi orðið fyrir meiðslum 2007 er hann hljóp inn í logandi hús til að reyna að bjarga lífi ungbarns sem var þar inni.
Lögreglumaðurinn Brad Garafola var 45 ára og fjögurra barna faðir. Hann var að ljúka næturvakt og á leið í sumarfrí þegar hann féll.
„Hann var frábær maður. Ekki bara frábær lögreglumaður, heldur líka frábær eiginmaður og frábær faðir,“ sagði kona hans, Tonja Garafola, við The Advocate. „Hann átti þetta ekki skilið. Hann var alltaf að hjálpa öllum.“
Þriðja fórnarlambið var Matthew Gerald, 41 árs, fyrrverandi hermaður og hafði líkt og Long gegnt hluta herþjónustu sinnar í Írak. Hann hafði starfað hjá lögreglunni í Baton Rouge síðan í október í fyrra.
„Hann var virkilega góður náungi,“ sagði Stephanie Morgan, nágranni Geralds síðan 2009. „Þeir gerast ekki betri.“
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur fordæmt skotárásina og krafist þess að árásum á lögregluna verði hætt.