Hópurinn nauðgaði konunni aftur

Þúsundum kvenna er nauðgað á Indlandi á hverju ári.
Þúsundum kvenna er nauðgað á Indlandi á hverju ári. AFP

Indversk kona liggur á sjúkrahúsi eftir að hafa verið nauðgað af hópi manna. Í hópnum voru menn sem dæmdir höfðu verið fyrir að nauðga henni fyrir þremur árum.

Lögreglan í Haryana, skammt frá Delí, segir að enn sé mannanna fimm leitað. Þeir eru sakaðir um að hafa rænt konunni, sem er 21 árs námsmaður, fyrir utan skólann hennar. Þeir þvinguðu hana til að taka lyf og nauðugu henni svo í bíl. 

Konan fannst meðvitundarlaus í runnum við hlið þjóðvegar aðfaranótt síðasta miðvikudags.

Lögreglan segir að konan hafi getað borið kennsl á alla fimm mennina. Tveir þeirra voru á skilorði fyrir að hafa nauðgað henni árið 2013. 

Fjölskylda konunnar segir að mennirnir hafi hótað henni í aðdraganda ofbeldisverksins á miðvikudag. Þeir höfðu krafist þess að hún myndi draga til baka nauðgunarkæruna frá árinu 2013.

„Mennirnir höfðu ítrekað hótað okkur utan réttarsalarins. Þeir buðu okkur meðal annars peningagreiðslur. En við vildum ekki samþykkja það,“ segir bróðir konunnar. 

Fjölskyldan segist einnig hafa neyðst til að flytja eftir árásina árið 2013 þar sem hún hafi orðið fyrir stöðugu áreiti frá mönnunum. 

Eftir að konu var nauðgað með hrottafengnum hætti í strætisvagni í Delí árið 2012 beindist kastljós fjölmiðla heimsins að kynbundnu ofbeldi sem er útbreitt á Indlandi. Í kjölfarið voru refsingar við nauðgunum hertar og áhersla var lögð á hraða meðferð slíkra mála í dómskerfinu. En ofbeldið hefur haldið áfram. Um slíkt berast daglega fréttir. 

Árið 2014 voru 36.735 nauðganir tilkynntar til lögreglu. Mannréttindasamtök segja að fjöldinn sé líklega mun meiri. 

mbl.is