Mega ekki taka upp dauðarefsingu

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, ræðir við blaðamenn.
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, ræðir við blaðamenn. AFP

Leiðtogar Evrópusambandsins minntu tyrknesk stjórnvöld á það í morgun að þau væru, sem aðilar að Evrópuráðinu, bundin af ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu sem banna dauðarefsingu.

„Ekkert ríki getur orðið aðildarríki að Evrópusambandinu ef það tekur upp dauðarefsingu,“ sagði Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, í samtali við blaðamann fyrir fund utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna sem hófst í Brussel í morgun.

Tyrkir hafa átt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið undanfarin ár.

Tyrkir hafa jafnframt undirritað og staðfest ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar dauðarefsingu á friðartímum, en það er skilyrði fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

„Tyrkland er mikilvægur hluti af Evrópuráðinu og er bundið af mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður mjög skýrt á um bann við dauðarefsingum,“ bætti hún við.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagðist í gær íhuga að taka aftur upp dauðarefsingu í landinu, í ljósi tilraunar hluta hersins til þess að ræna völdum og steypa honum af stóli. Valdaránstilraunin mistókst og sagði Erdogan að uppreisnarmennirnir þyrftu að greiða dýru verði fyrir svik sín við föðurlandið.

Hann sagðist jafnframt ætla að ræða við stjórn­ar­and­stöðuna um málið og kom­ast að niðurstöðu. Ekki væri hægt að fresta því enda­laust að ákveða hver refs­ing upp­reisn­ar­mann­anna yrði. 

Dauðarefs­ing var num­in úr lög­um í land­inu árið 2004. Henni hef­ur hins veg­ar ekki verið beitt síðan árið 1984.

mbl.is