Mehmet Simsek, varaforsætisráðherra Tyrklands, segist eiga von á því að bandarísk stjórnvöld styðji og samþykki framsalsbeiðni Tyrklands vegna tyrkneska klerksins Fethullahs Gulens.
Ráðherrann lét ummælin falla í samtali við sjónvarpsstöðina Kanal 7 í dag. Hann sagði að þegar bandarísk stjórnvöld hefðu skoðað vel og vandlega þau sönnunargögn sem Tyrkir legðu fram, þá gætu þau ekki annað en stutt beiðnina.
Tyrknesk stjórnvöld segja að Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, beri ábyrgð á misheppnuðu valdaránstilrauninni í Tyrklandi á föstudag. Þau telja að hann vilji helst af öllu steypa helsta andstæðingi sínum, Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, af stóli og vilja fá hann framseldan til Tyrklands og láta hann þar svara til saka.
Gulen hefur hins vegar vísað ásökununum á bug. Hann telur að Erdogan hafi sjálfur sett tilraunina á svið til þess að styrkja valdastöðu sína enn frekar.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að bandarísk stjórnvöld íhugi allar framsalsbeiðnir sem standist landslög.
Gulen og Erdogan voru eitt sinn nánir bandamenn en eru nú miklir erkifjendur. Sá síðarnefndi hefur margoft sakað Gulen og hreyfingu hans um samsæri gegn tyrkneska ríkinu, en Gulen hefur á hinn bóginn gagnrýnt Tyrklandsforseta harðlega fyrir einræðistilburði sína.