Bandarísk stjórnvöld styðja tilraunir Tyrkja til þess að láta þá sem tóku þátt í valdaránstilrauninni í landinu á föstudag svara til saka fyrir dómstólum. Tyrknesk stjórnvöld verða þó að virða lög og reglur.
Þetta sagði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að loknum fundi sínum með utanríkisráðherrum Evrópusambandsríkjanna í morgun.
„Við stöndum með kjörnum leiðtogum Tyrklands,“ sagði hann. „En við hvetjum einnig tyrknesk stjórnvöld til þess að koma á ró og stöðugleika í öllu landinu.“
Tyrknesk stjórnvöld þyrftu jafnframt að virða lög og reglur og lýðræðislegar stofnanir landsins. Kerry sagði að Bandaríkin styddu tilraunir Tyrkja til þess að láta uppreisnarmennina svara til saka. Ekki mætti hins vegar ganga lengra en það.
Yfirvöld í Tyrklandi greindu frá því í morgun að næstum því átta þúsund lögreglumönnum hefði verið vikið úr starfi vegna gruns um að hafa tekið þátt í valdaránstilrauninni á föstudag. Þá hafa sex þúsund manns jafnframt verið handteknir, þar á meðal hermenn, dómarar og saksóknarar.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagðist í gær ætla að halda áfram að eyða þeirri „veiru sem hefur breiðst um allt stjórnkerfið og tekið sér bólfestu þar“.