„Uggvænleg þróun“ í Tyrklandi

Stuðingsmenn Erdogans fagna í miðborg Istanbúls.
Stuðingsmenn Erdogans fagna í miðborg Istanbúls. AFP

Það skiptir algjörlega sköpum fyrir Evrópu að Tyrkland haldist á braut veraldarvæðingar, lýðræðis og vestræns samstarfs og hverfi ekki aftur til íslamisma og halli sér lengra í austur. Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Hann segir í samtali við mbl.is að Tyrkland sé eitt mikilvægasta ríkið fyrir frið í Evrópu. „Það er algjört lykilatriði fyrir Vesturveldin að halda Tyrklandi sem samstarfsríki sínu.“

Þróunin hafi þó verið uggvænleg. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi verið að fikra sig af braut Mustafa Kemal Atatürks, fyrsta forseta Tyrklands, afhelgunar og veraldarvæðingar og hallað sig nánar að íslömskum öflum.

„Og ekki bara það, heldur hefur hann verið að herða tökin innanlands og draga úr lýðræði. Þetta hefur verið uggvænleg þróun og svo virðist sem hann sé að nýta þetta tækifæri, hvernig svo sem það er tilkomið, til þess að herða tökin enn frekar. Þetta getur verið mjög erfitt fyrir Vesturlöndin,“ segir Eiríkur Bergmann.

Hann tekur þó fram að margt sé óvíst og eigi eftir að skýrast betur eftir atburði síðustu daga. Því sé ekki hægt að slá neinu föstu um þróun mála í Tyrklandi á þessari stundu.

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Erdogan nýtir tækifærið

Eins og kunnugt er eiga sér nú stað miklar hreinsanir í stjórnkerfi Tyrklands í kjölfar misheppnuðu valdaránstilraunarinnar á föstudag. Öryggissveitir Erdogans hafa þegar handtekið um sex þúsund manns, þar á meðal hermenn, dómara og saksóknara, og þá hefur um átta þúsund lögreglumönnum verið vikið úr starfi.

Erdogan sagði sjálfur að valdaránstilraunin hefði verið eins og „gjöf frá guði“. Nú gæfist tækifæri „til þess að hreinsa til í hernum“.

Útilokað að eiga í viðræðum við Erdogan

Eiríkur Bergmann segir augljóst að þeir harðræðistilburðir sem Erdogan hefur sýnt séu ekki til þess fallnir að liðka fyrir aðildarviðræðum Tyrkja við Evrópusambandið, enda hafi þær legið í láginni undanfarið. Þó hafi leiðtogar Evrópusambandsins gert samning við tyrknesk stjórnvöld þar sem tyrkneskir ríkisborgarar fengu ferðafrelsi í Evrópu, þar á meðal hér á landi.

„En þessi þróun er algjörlega í hina áttina og það er útilokað fyrir Evrópusambandið að standa í aðildarviðræðum við mann sem ekki virðir mannréttindi, réttarríkið og lýðræðið.“

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Algjört lykilríki fyrir Evrópu

Þjóðarleiðtogar um allan heim fordæmdu valdaránstilraunina á föstudagskvöld en hafa hvatt tyrknesk stjórnvöld til þess að sýna stillingu og ganga ekki of langt í pólitískum hreinsunum. Þeir hafa forðast að styggja Erdogan um og of, enda er mikilvægt fyrir frið í álfunni að allt fari ekki í kaldakol í Tyrklandi. Evrópusambandsríkin eiga margt undir Tyrkjum, svo sem í flóttamannamálum.

Eiríkur Bergmann ítrekar að Tyrkland sé algört lykilríki fyrir Evrópu og eitt mikilvægasta ríkið í veröldinni til þess að eiga í góðum samskiptum við. „Og ef það fer allt í kaldakol þar, þá erum við í mjög slæmum málum og í svo mörgum málaflokkum, ekki síst í flóttamannamálunum. Flóttamannavandinn er auðvitað fyrst og fremst þar. Langflestir flóttamenn sem koma frá Sýrlandi eru í Tyrklandi,“ bendir hann á.

Herinn ekki lengur heildstætt afl

Eiríkur Bergmann telur ómögulegt að segja til um það hvort staða Erdogans muni styrkjast til frambúðar eftir atburði síðustu daga. Þannig líti það þó út í augnablikinu. „En það er augljóslega mjög hörð valdabarátta á milli ýmissa afla. Það sem er nýtt er hvað herinn virðist skiptast í fylkingar. Hann er ekki þetta heildstæða afl sem hann eitt sinn var.“

Erdogan hafi jafnframt sjálfur hreinsað til í hernum fyrir sex árum og margir þá talið að hann hafi jafnvel náð tök á honum. „Maður á enn eftir að sjá það,“ segir Eiríkur. Hafa beri í huga að herinn sé eitt sterkasta aflið í landinu og vald hans hverfi ekki á einni nóttu.

AFP
mbl.is