Tyrkneskur dómstóll úrskurðaði í morgun 278 manns, þar á meðal þrettán háttsetta hershöfðingja, í gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa skipulagt og tekið þátt í valdaránstilrauninni á föstudag.
Dómstóllinn sagði að mennirnir, sem væru í „skipulögðum hryðjuverkasamtökum“, hefðu gerst sekir um „glæp gegn stjórnvöldum“, að sögn tyrkneska fjölmiðilsins Anadolu.
Lífstíðarfangelsi liggur við brotum þeim sem mennirnir eru sakaðir um að hafa framið.
Á meðal hinna handteknu eru hershöfðingjarnir Akin Ozturk, sem er sakaður um að hafa leitt uppreisnina gegn tyrkneskum stjórnvöldum, og Adem Hududi, að sögn Associated Press. Þeir bíða þess nú að réttað verði yfir þeim.
Ozturk hefur vísað ásökununum á bug.
Yfir átta þúsund manns í tyrkneska stjórnkerfinu hafa verið handteknir undanfarna daga, ekki aðeins hermenn, heldur einnig lögreglumenn, dómarar, ríkisstjórar og fjölmargir ríkisstarfsmenn.
Tyrkneska innanríkisráðuneytið rak í gær níu þúsund starfsmenn úr starfi, en alls hefur tuttugu þúsund ríkisstarfsmönnum verið vikið úr starfi frá því á laugardag.
Stjórnmálaskýrendur gera fastlega ráð fyrir því að pólitískar hreinsanir Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, haldi áfram næstu daga.