Aftur deilt um kynferðisbrotamálin

Ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum er umdeild.
Ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum er umdeild. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum og verkefnisstjóri neyðarmóttökunnar eru ekki sammála um hvort veita eigi fjölmiðlum upplýsingar um hugsanleg kynferðisbrot á þjóðhátíð, eins og greint var frá fyrr í dag. Málið komst í hámæli í fyrra eftir að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, sendi bréf á viðbragðsaðila þess efnis að ekki yrðu gefnar upplýsingar um möguleg kynferðisbrot á Þjóðhátíð.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Bréfið sendi hún í lok júlí. Sagði Páley að markmiðið væri að hlífa aðilum máls á meðan þeir færu í gegnum erfitt ferli. Var bréfið sent á læknaforstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, yfirmann sjúkraflutninga, yfirmann gæslunnar á Þjóðhátíð og neyðarmóttöku Landspítala. Einnig voru send afrit á forsvarsmenn áfallateymis hátíðarinnar og félagsþjónustu Vestmannaeyja. 

Sjá frétt mbl.is: Munu ekki upplýsa um kynferðisbrot

Sagði ákvörðunina byggja á skilningsleysi

Viðbrögðin við ákvörðuninni voru mikil. Guðrún Jónsdóttir, talsmaður Stígamóta, sagði ákvörðunina byggja á skilningsleysi. „Mér finnst þessi ákvörðun byggjast á litlum skilningi á því hvað sé brotaþolum fyrir bestu. Nauðgun er gífurlegt áfall. Fæstir brotaþolar kæra fyrr en seint um síðir, ef þeir gera það einhvern tímann. Þegar við höfum kannað það hvað skiptir brotaþolum mestu máli, þá er það ekki þetta,“ sagði Guðrún.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

Sagðist Guðrún telja að ákvörðun lögreglustjórans myndi hafa óheppilegar afleiðingar. „Það er dálítið óheppilegt að þessi aðgerð er mjög í hag þeirra sem fremja brot og þeirra sem vilja halda ásýnd útihátíða flekklausum, því þannig virkar það í raun,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is í fyrra

Fréttamenn furðuðu sig á málflutningi lögreglustjórans

Þá sendu stjórnir Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna frá sér ályktun í fyrra vegna málsins. Þar furðuðu þær sig á málflutningi lögreglustjórans og þeim sjónarmiðum sem lægju ákvörðuninni til grundvallar.

Sjá frétt mbl.is: Furða sig á málflutningi lögreglustjóra

Sagði meðal annars í ályktuninni að það væri skylda fjölmiðla að segja frá ofbeldisglæpum og það þjónaði aðeins hagsmunum ofbeldismanna að þegja um þá. Félögin sögðu það samfélagslega og lýðræðislega skyldu lögreglu og annarra viðbragðsaðila að greina skilmerkilega frá því sem gerðist og fréttnæmt þætti á Þjóðhátíð, í þágu þeirra sem sækja hátíðina heim og heimamanna í Vestmannaeyjum.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagðist einnig efast um ákvörðun Páleyjar. „Ég lýsi yfir nokkrum efasemdum um þessa ákvörðun. Ég tel að þetta sé ekki endilega til hagsbóta, að ekki sé sagt frá kynferðisbrotum eftir að þau hafa átt sér stað,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is í lok júlí í fyrra

Farsælla að fara yfir verkferla

Kvenréttindafélag Íslands sendi einnig frá sér ályktun þar sem lögreglustjórinn var hvattur til þess að draga til baka tilmæli sín til viðbragðsaðila. Félagið lýsti yfir „furðu á að valin sé sú leið til úrbóta á meðferðum ofbeldismála á Þjóðhátíð að þagga niður möguleg ofbeldismál, og það mitt í þeirri afþöggunarbyltingu sem á sér stað á Íslandi núna.“

Sagði í ályktuninni að mikilvægt væri að halda trúnað við þolendur og styðja þá í kjölfar kynferðisbrots, m.a. með því að tryggja að umfjöllun um brotið væri fagleg. „Félagið bendir á að farsælla hefði verið að fara gætilega yfir verkferla upplýsingagjafar lögreglunnar til fjölmiðla og skýra betur hvaða upplýsingar megi fara frá embættinu og hverjar ekki. Til að mynda er mikilvægt að segja að kynferðisbrot hafi átt sér stað, en gæta þess að aldri, kyni og uppruna þolenda og öðrum viðkvæmum upplýsingum sé haldið frá fjölmiðlum,“ sagði enn fremur í tilkynningunni.

„Geri þolendum frekar óleik“

Aðrir studdu ákvörðun Páleyjar. Á meðal þeirra var Hjalti Jónsson, doktor í klínískri sálfræði og umsjónarmaður áfallateymisins í Vestmannaeyjum yfir Þjóðhátíð. 

„Við höfum lent í því að þolendur hafa verið að lesa um þessi mál í fjölmiðlum samdægurs og það hefur ekki verið að gera neinum gott,“ sagði Hjalti í samtali við mbl.is í fyrra og bætti við: „Það er ekkert nýtt sem kemur fram í þessu bréfi [lögreglustjórans til viðbragðsaðila, innsk. blm.] gagnvart okkur sem störfum í áfallateyminu og á heilsugæslunni. Hún er bara að skerpa á þagnarskylduákvæðinu og við sem höfum verið að vinna að þessum málum með þolendum á hátíðinni höfum ekki verið að fara með mál í fjölmiðla.“

Sjá frétt mbl.is: „Gerir þolendum frekar óleik“

Hann sagði að auðvitað kæmi sá tímapunktur þegar öll mál færu í fjölmiðla. „En þetta er oft mjög viðkvæmur tímapunktur akkúrat þegar fjölmiðlar hringja. Við höfum ekki séð ástæðu til þess að tilkynna um þessi mál á þeim tímapunkti, það hefði frekar gert óleik gagnvart þolendum frekar en eitthvað annað,“ sagði Hjalti.

Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Síðan fór Þjóðhátíð fram. Lögreglan sagði hátíðina hafa farið rólega af stað á laugardeginum. Ekki fengust þá upplýsingar frá lögreglunni um hvort kærur vegna kynferðisbrota hefðu borist um nóttina. „Það er ekki til umræðu,“ svaraði varðstjóri þegar um það var spurt af blaðamanni mbl.is í fyrra

Starfsmaður neyðarmóttöku nauðgana greindi frá því eftir hátíðina að þrjár tilkynningar um kynferðisbrot hefðu borist á hátíðinni um verslunarmannahelgina. 

Síðar sama dag bárust sömu upplýsingar frá lögregluembættinu í Vestmannaeyjum.

Páley sagði þá í samtali við mbl.is að betra hefði verið að bíða með að tilkynna um kynferðisbrotin en lögregluembættið greindi frá brotunum eftir að starfsmaður neyðarmóttökunnar greindi frá þeim. 

„Það stóð alltaf til að birta upplýsingar en kannski ekki í dag. Ég er ekkert sérstaklega sátt við að þurfa að birta þessar upplýsingar í dag, sérstaklega í ljósi þess að í einu málinu er rannsóknin á því stigi að við hefðum þurft að klára ákveðin atriði áður en þetta fór í birtingu. En eftir að neyðarmóttakan veitir þessar upplýsingar þá er bara einn kostur,“ sagði Páley í samtali við mbl.is.

mbl.is

Sjá frétt mbl.is: „Það hefði verið betra að bíða“

Síðar um haustið höfðu lögreglu borist alls fimm kærur vegna kynferðisbrota á þjóðhátíð. Það kom fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Um var að ræða þrjár nauðganir og misneytingu, eitt blygðunarsemisbrot og eitt tilfelli kynferðislegrar áreitni. 

Málið til umræðu á málþingi síðasta haust

Málið var til umfjöllunar á málþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, þar sem rætt var hvort breyta þyrfti lagaumhverfinu í kynferðisbrotamálum. Var Páley þar með erindi þar sem hún vék að ákvörðun sinni í aðdraganda Þjóðhátíðar 2015. 

Frá málþingi Orators í fyrra.
Frá málþingi Orators í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

„Eins og frægt er orðið ákvað ég að vernda brotaþola í mínu umdæmi með þeirri ákvörðun að breyta verklagi, að afleggja það afleita verklag að tilkynna alltaf í hádeginu dag hvern um öll tilkynnt kynferðisbrot til lögreglunnar. Þetta var verklag sem hafði verið við lýði um margra ára skeið, setja þetta fram í fréttatilkynningu. Þetta er þessi eina helgi á árinu, eina umdæmið. Ég er algjörlega sannfærð um að það sé hárrétt að sleppa þessu,“ sagði Páley á málþinginu. 

Sagði hún ástæðuna vera tvíþætta. Annars vegar vegna rannsóknarhagsmuna og hins vegar vegna hagsmuna brotaþola.

Sjá frétt mbl.is: „Gefi ekki afslátt af réttarríkinu“

„Við þurfum að halda honum í eins góðu jafnvægi og við mögulega getum. Málið lak í fjölmiðla, brotaþoli vorkenndi gerandanum mjög mikið, enda var þetta vinur hennar og góður strákur,“ sagði Páley um eitt tiltekið mál og bætti við að brotaþoli í því máli hefði í kjölfarið hætt við að leggja fram kæru.

„Þetta eru rannsóknarhagsmunirnir sem við erum sífellt að hugsa um og þurfum að fá aðstöðu til þess að tryggja. Þetta er dæmi um það sem getur gerst ef rannsóknin fer í loftið of snemma,“ sagði hún og bætti við að lögregla þyrfti ákveðinn frið við rannsókn mála.

mbl.is