Heita því að uppræta uppreisnarmenn

AFP

Tyrknesk stjórnvöld, með Recep Tayyip Erdogan forseta í broddi fylkingar, hafa heitið því að uppræta bandamenn klerksins Fethullah Gulens sem þau segjast fullviss um að beri ábyrgð á valdaránstilrauninni í landinu á föstudag.

Miklar og fordæmalausar hreinsanir hafa átt sér stað í stjórnkerfi landsins undanfarna daga, en þúsundir hermanna, lögregluþjóna, dómara, embættismanna og annarra ríkisstarfsmanna hafa verið handteknir eða reknir úr starfi.

Erdogan hefur kallað eftir því að Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, verði framseldur til Tyrklands og látinn þar svara til saka fyrir dómstól.

Vakið óhug víðast hvar

Að minnsta kosti 232 manns létu lífið og yfir þúsund særðust í átökum aðfaranótt laugardags. Tilraunin mistókst hrapallega en hún þótti illa skipulögð og vanhugsuð, að mati stjórnmálaskýrenda. 

Tyrknesk stjórnvöld hafa handtekið eða rekið hátt í 35 þúsund hermenn, lögreglumenn, dómara og ríkisstarfsmenn frá því að tilraunin var brotin á bak aftur á laugardag.

Hreinsanirnar hafa vakið óhug víða og hefur alþjóðasamfélagið fordæmt tyrknesk stjórnvöld harðlega og hvatt þau til þess að sýna stillingu. Þau verði að hafa réttarríkið í heiðri og virða lýðræðislegar hefðir.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Lokaði 24 fjölmiðlum

Erdogan felldi í dag úr gildi leyfi fjölmiðlafyrirtækja sem talið er að styðji Gulen og hreyfingu hans. Þá greindu stjórnvöld frá því að fimmtán þúsund starfsmönnum menntamálaráðuneytisins hefði verið vikið úr starfi, 492 frá kirkjumálaráðuneytinu, 257 frá skrifstofu forsætisráðherrans og eitt hundrað starfsmönnum leyniþjónustunnar.

Auk þess var þess krafist að rektorar og deildarforsetar allra háskóla landsins, hvort sem þeir eru einkareknir eða ríkisreknir, samtals 1.577 manns, segðu tafarlaust af sér.

Tugir hershöfðingja, þar á meðal Akin Ozturk, fyrrum hershöfðingi í tyrkneska flughernum, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og bíða þess nú að réttað verði í máli þeirra. Tyrknesk stjórnvöld hafa sagt að Ozturk hafi verið einn af skipuleggjendum valdaránsins, en hann hefur vísað því á bug.

Áður hafði verið greint frá því að sex þúsund hermenn hafi verið handteknir, níu þúsund lögregluþjónar reknir og þrjú þúsund dómurum vikið frá.

Numan Kurtulmus, varaforsætisráðherra Tyrklands, sagði í samtali við tyrkneska fjölmiðla í morgun að alls ættu 9.322 manns yfir höfði sér ákæru í tengslum við tilraunina.

AFP

„Veira“ í stjórnkerfinu

Erdogan sagði á laugardag að valdaránstilraunin hefði verið líkt og „gjöf frá guði“. Nú gæfist tækifæri til þess að „hreinsa til í hernum“. Honum var umhugað um þá „veiru“ sem hefði breiðst út um allt stjórnkerfið og tekið sér bólfestu þar. Henni þyrfti að eyða með öllum tiltækum ráðum.

Og ekki var setið við orðin tóm. Síðar sama dag var greint frá handtöku þrjú þúsund manna úr hernum og jafnframt að um þrjú þúsund dómurum hefði verið vikið frá.

Þessar tölur áttu eftir að hækka, ískyggilega mikið, eftir því sem leið á helgina.

Það vakti mikla furðu að tyrknesk stjórnvöld hófu strax á laugardagsmorgun, nokkrum klukkustundum eftir að valdaránstilraunin var brotin á bak aftur, að hreinsa út óæskileg öfl úr stjórnkerfinu.

Johannes Hahn, sem fer með stækkunarmál Evrópusambandsins, sagði til að mynda í gærmorgun að listarnir yfir þá sem voru handteknir hefðu verið tilbúnir áður en valdaránstilraunin var gerð.

AFP

Gulen neitar sök

Gulen hefur sjálfur neitað því að hafa komið nálægt valdaránstilrauninni. Þess í stað hefur hann gefið í skyn að Erdogan hafi sjálfur sett tilraunina á svið til þess að geta styrkt valdastöðu sína og vængstýft andstæðinga sína.

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í morgun að stjórnvöld í landinu hefðu sent bandarískum stjórnvöldum fjórar skýrslur samhliða framsalsbeiðninni vegna Gulens. Hann hvatti jafnframt Bandaríkjamenn til þess að „hætta að vernda svikarann“.

Klerkurinn Fethullah Gulen.
Klerkurinn Fethullah Gulen. AFP

Telja öllum vafa eytt

„Við höfum meira en nóg af sönnunargögnum, meira en hægt væri að biðja um, varðandi sök Gulens,“ sagði Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra Tyrklands. „Það er engin þörf á því að sanna hver ber ábyrgð á valdaránstilrauninni. Öll sönnungargögn sýna að tilraunin var skipulögð eftir hans vilja og beiðni,“ bætti hann við.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að bandarísk stjórnvöld muni skoða allar framsalsbeiðnir sem standist landslög.

Tyrkneskir leiðtogar segja að bandamenn Gulens, sem hefur dvalið í sjálfskipaðri útlegð í Pennsylvaníu frá árinu 1999, hafi komið sér fyrir víða í tyrkneska stjórnkerfinu.

Þeir séu eins og veira sem hafi breiðst um og heltekið ríkið. Yildirim hét því í morgun að uppræta þá alla með tölu.

AFP
mbl.is