Tyrkneskra herskipa saknað

AFP

Nokkurra tyrkneskra herskipa er saknað en áhafnir skipanna hafa ekki látið heyra í sér eftir að gerð var misheppnuð tilraun til valdaráns í landinu á föstudag.

Talið er að skipherrarnir hafi verið á meðal þeirra sem skipulögðu valdaránið, að því er segir í frétt The Independent.

Ekkert hefur heyrst af Veysel Kosele, sjóliðsforingja tyrkneska hersins, eftir valdaránstilraunina, samkvæmt heimildum The Times í Bretlandi.

Ekki er vitað á þessari stundu hvort hann hafi tekið þátt í tilrauninni eða hvort uppreisnarmennirnir hafi tekið hann sem gísl og siglt með hann af landi.

Fjórtán skipa er saknað, en síðast var vitað af þeim í annað hvort Eyjahafi eða Svartahafi. Áhafnirnar hafa ekki haft samband við höfuðstöðvar hersins eða tyrknesk yfirvöld.

Talið er að þau séu nú á leið til Grikklands. Á laugardag flúðu átta hátt settir hershöfðingjar frá Tyrklandi til Grikklands með þyrlu. Þar hugðust þeir leita hælis.

Tyrkneski ríkisfjölmiðillinn hefur greint frá því að dómstóll þar í landi hafi nú þegar úrskurðað 85 hershöfðingja og flotaforingja í gæsluvarðhald. Eru þeir grunaðir um að taka hafa tekið þátt í valdaránstilrauninni.

Fjölmargir til viðbótar hafa verið yfirheyrðir.

Talið er á meðal þeirra handteknu séu hershöfðingjarnir Akin Ozturk, sem er talinn hafa leitt uppreisnina, og Adem Hududi. Þeir bíða þess nú að réttað verði í máli þeirra.

Frétt The Independent

AFP
mbl.is