Háskólafólki meinað að starfa erlendis

AFP

Tyrknesk menntamálayfirvöld hafa meinað háskólafólki að fara í vinnuferðir til útlanda og hvatt þá sem eru þegar erlendis til að snúa fljótt heim til Tyrklands. Tyrkneski ríkisfjölmiðillinn Anadolu greindi frá þessu í morgun.

Í frétt AFP segir að í sérstakri orðsendingu tyrkneskra stjórnvalda til rektora háskóla landsins séu þeir hvattir til þess að kanna sérstaklega stöðu þess háskólafólks sem tengist hreyfingu klerksins Fethullah Gulens. 

Það verða þeir að gera fyrir 5. ágúst næstkomandi.

Tyrknesk stjórnvöld saka Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, um að hafa staðið fyrir valdaránstilrauninni misheppnuðu í vikunni sem leið.

Í orðsendingunni segir jafnframt að það háskólafólk sem er þegar í vinnu- eða námsferðum erlendis eigi að snúa aftur heim eins fljótt og mögulegt er.

Stjórnvöld í landinu viku 15.200 starfsmönnum tyrkneska menntakerfisins úr starfi í gær og kröfðust þess jafnframt að 1.600 deildarforsetar í háskólum landsins, bæði einka- og ríkisreknum, segðu af sér.

Eru þeir sakaðir um að tengjast eða styðja hreyfingu Gulens.

Gulen hefur vísað ásökununum á bug.

mbl.is