Loka fyrir Wikileaks í Tyrklandi

AFP

Tyrknesk stjórnvöld lokuðu fyrir aðgang að vefsíðu WikiLeaks í morgun, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að samtökin opinberuðu þúsundir skjala er varða ráðandi öfl landsins.

Um er að ræða næstum því 300 þúsund tölvupósta er varða Jafnréttis- og þróunarflokk Receps Tayyips Erdogans, forseta landsins, AK-flokkinn. Tölvupóstarnir ná frá árinu 2010 til 6. júní á þessu ári.

Wikileaks fengu gögnin í sínar hendur áður en valdaránstilraunin var gerð í landinu á föstudag, en í yfirlýsingu sögðu samtökin að birting þeirra væri svar við pólitískum hreinsunum stjórnvalda í kjölfar tilraunarinnar.

Um fimmtíu þúsund hermenn, lögregluþjónar, dómarar og kennarar hafa verið reknir eða handteknir í kjölfar tilraunarinnar misheppnuðu.

Heimildarmaður Wikileaks er ekki sagður tengjast uppreisnarmönnunum, tyrknesku stjórnarandstöðunni eða stjórnvöldum, að sögn samtakanna.

Fyrir birtingu gagnanna höfðu samtökin bent á að tyrknesk stjórnvöld myndu líklegast ritskoða þau. Voru net­not­end­ur því hvatt­ir til þess að nota króka­leiðir til að skoða gögn­in, þá sér­stak­lega Tor­rent-tækn­ina. 

Frétt Reuters

mbl.is