Mannréttindi í mikilli hættu í Tyrklandi

Valdaránstilraunin hefur leyst úr læðingi skelfilegt ofbeldi í Tyrklandi.
Valdaránstilraunin hefur leyst úr læðingi skelfilegt ofbeldi í Tyrklandi. AFP

Mannréttindi eiga á brattann að sækja í Tyrklandi eftir valdaránstilraunina í síðustu viku. Amnesty International rannsakar nú vitnisburði um að fangar þar í landi hafi mátt sæta misnotkun, þar á meðal illri meðferð, í varðhaldi og verið meðal annars neitað um aðgang að lögfræðingum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.

208 manns létu lífið í átökum aðfararnótt laugardags í Tyrklandi og hafa tyrknesk stjórnvöld handtekir þúsundir manna í kjölfar tilraunarinnar misheppnuðu. 

John Dalhuisen, yfirmaður Evrópu- og Mið-Asíudeildar Amnesty International, segir að fjöldi þeirra brottvísana og handtaka síðan á föstudag sé ískyggilegur. Valdaránstilraunin hafi leyst úr læðingi skelfilegt ofbeldi og þeir sem beri ábyrgð á ólögmætum drápum og öðrum mannréttindabrotum verði að svara til saka, en að brjóta öll andmæli á bak aftur og hóta því að koma dauðarefsingunni aftur á laggirnar eigi ekkert skylt við réttlæti.

Stjórnvöld virði réttarríkið

„Við hvetjum tyrknesk yfirvöld til þess að sýna stillingu og virða réttarríkið við rannsóknir sínar, veiti þeim sem í haldi eru sanngjörn réttarhöld og leysi þá úr haldi sem ekki tekst að sanna að hafi átt þátt í glæpsamlegu athæfi. Afturför í mannréttindamálum er það síðasta sem Tyrkland þarf á að halda,“ segir hann.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Dagana eftir valdaránstilraunina stóðu tyrknesk stjórnvöld fyrir miklum hreinsunum innan hersins, dómskerfisins og borgaralegra deilda innanríkisráðuneytisins. Yfirlýsingar forsetans og embættismanna stjórnvalda um að hugsanlega verði dauðarefsingin tekin upp aftur til þess að refsa þeim sem verða fundnir sekir um valdaránstilraunina er mikið áhyggjuefni, að sögn Amnesty International, þar sem slíkt myndi brjóta gegn mannréttindasáttmálum sem Tyrkland á aðild að sem og þeirri vernd sem tryggð er í tyrknesku stjórnarskránni.

Bitnar einnig á fjölmiðlum og aðgerðasinnum

Dalhuisen segir fjöldahandtökur og brottvikning vera mikið áhyggjuefni í ljósi aukins umburðaleysis tyrkneskra stjórnvalda gagnvart friðsamlegum andmælum og hætta sé á því að herferð gegn þeim sem taldir eru standa að valdaránstilrauninni muni einnig bitna á fjölmiðlamönnum og borgaralegum aðgerðasinnum.

„Síðastliðna mánuði hafa pólitískir aðgerðasinnar, fjölmiðlamenn og aðrir sem gagnrýnt hafa opinbera embættismenn eða stefnu stjórnvalda stöðugt verið gerðir að skotmarki og hald verið lagt á hvers konar miðla,“ segir hann.

Aldrei hafi verið eins mikilvægt fyrir tyrknesk stjórnvöld að virða mannréttindi og réttarríkið á þann veg sem þeir sem lögðu á ráðin um valdaránið gerðu ekki.

AFP
mbl.is