„Þetta er pínlegt fyrir alla“

Helgi Sæmundur og Arnar Freyr.
Helgi Sæmundur og Arnar Freyr. Ljósmynd/Birta Ran Bjorgvinsdottir

Hljómsveitin Úlfur Úlfur hvetur málsaðila til að hlusta á ákall samfélagsins um betrumbætur á þjóðhátíð í Eyjum. Sveitin er ein þeirra sem spila á hátíðinni í ár og í yfirlýsingu sinni segir hún Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, skapa aðstæður til nauðgana með þöggun á umræðu.

„Ég er spenntur því á Íslandi fá listamenn sjaldan eða aldrei tækifæri til þess að koma fram við sambærilegar aðstæður - í risavöxnu kerfi á risavöxnu sviði fyrir framan risavaxið mannhaf - sérstaklega ekki ef maður er stelpa. Sem betur fer erum við tveir gaurar,“ skrifar færsluritari sveitarinnar sem samanstendur af þeim Arnari Frey Frostasyni og Helga Sæmundi Guðmundssyni.

Færsluritari segir að nauðgunarmál á þjóðhátíð hafi verið meðhöndluð á vafasaman hátt. Hagsmunaaðliar séu svo stoltir að þeir fari í vörn fremur en að hlusta og læra af gagnrýni. Fyrir vikið batni aðstæður ekki fyrir þolendur, þeim sé enn nauðgað og það sé staðreynd.

Frá þjóðhátíð 2008.
Frá þjóðhátíð 2008.

„Það eru nauðgarar sem nauðga en það eru aðrir sem skapa aðstöðu fyrir þá - t.d. þegar lögreglustjóri þaggar niður í umræðu um brot á hátíð sem hafnar samstarfi við Stígamót. Það er verið að verja orðspor hátíðarinnar og bæjarfélagsins af svo miklum mætti að áhrifin virka öfugt og orðsporið verður að engu. Hættið að berjast á móti og berjist frekar með. Í alvöru. Þetta er pínlegt fyrir alla,“ segir í færslu sveitarinnar.

„Við hvetjum alla málsaðila til þess að hlusta á ákall samfélagsins um betrumbætur. Það er enginn að gagnrýna hátíðina til þess að skemma fyrir Vestmannaeyjum - við viljum bara sjá alla sem málið varðar snúa vörn í sókn. Verjum ekki það sem hefur verið illa gert í fortíðinni heldur reynum að nýta orkuna í að gera betur fyrir framtíðina.“

Í dag hefur þess gætt á Twitter að kallað sé eftir því að hljómsveitir sem bókaðar hafa verið á hátíðina hætti við. Enn virðist enginn hafa svarað því kalli en eins og Úlfur Úlfur bendir á er um einn allra stærsta tónleikavettvang ársins að ræða.

mbl.is