Lögregla í Indlandi hefur handtekið þrjá menn í tengslum við meinta hópnauðgun námsmanns í landinu í síðustu viku. Tveir þeirra hafa áður verið ákærðir fyrir að nauðga sömu konunni.
Konan, sem er 21 árs, sagði lögreglu að henni hafi verið rænt nálægt skóla hennar í ríkinu Haryana í síðustu viku af fimm mönnum. Mennirnir neyddu ofan í hana lyf og nauðguðu henni síðan.
Konan gat borið kennsl á mennina og sagði hún þá sömu og nauðguðu henni árið 2013. Tveir þeirra voru enn á skilorði fyrir þá nauðgun.
Að sögn lögreglu er tveggja manna til viðbótar enn leitað.
Konan fannst meðvitundarlaus í runnum nálægt hraðbraut á miðvikudagskvöld. Að sögn fjölskyldu hennar höfðu mennirnir hótað henni áður en þeir nauðguðu henni og krafist þess að hún myndi draga fyrri kærurnar til baka. Þá þurfti fjölskylda konunnar að flýja heimabæ sinn vegna málsins en þau höfðu orðið fyrir aðkasti.
36.735 nauðganir voru tilkynntar í Indlandi árið 2014. Þó er talið líklegt að talan sé mun hærri þar sem fórnarlömb tilkynna ekki alltaf brotin vegna skammarinnar sem fylgir í samfélaginu.
Fyrri frétt mbl.is: Hópurinn nauðgaði konunni aftur