„Ég var spurð hvort ekki sé mikilvægt að tilkynna um að á hátíðinni sé maður sem hefur framið kynferðisbrot. Auðvitað yrði upplýst um það ef almannahætta stafaði af einstaklingi en yfirleitt gerast þessi brot á milli nátengdra aðila og það var svarið við þessari spurningu,“ segir Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum um ummæli sem höfð voru eftir henni í frétt Fréttablaðsins í dag.
Páley segir þar að „flest þessara brota eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. Það er bara staðreyndin. Við erum ekki að sjá þessi brot, sem betur fer og vonandi munum við ekki sjá það og reynum að fyrirbyggja með öflugri gæslu og svona, þessi almannafærisbrot.
Páley segir lögregluembættið alltaf vinna að því að bæta öryggi hátíðargesta. „Við erum alltaf að reyna að auka gæslu, vernda öll svæði, auka lýsingu og bæta við eftirlitsmyndavélum. Við erum með 100 manns í gæslu sem starfa með lögreglunni, 27 lögreglumenn, fíkniefnateymi, þrjá lögreglubíla og tvo sjúkrabíla í dalnum auk bráðalækna. Við erum rosalega vel mönnuð og erum alltaf að reyna að tryggja að allir komist heilir heim. Kynferðisbrot eru alltaf alvarleg brot óháð því hvar þau eru framin en lögreglan á að sjálfsögðu erfiðara með gæslu og eftirlit heima hjá fólki, nema hún sé kölluð til,“ segir Páley.
Í leiðara Fréttablaðsins segir að sú spurning vakni óneitanlega hvort lögreglustjórinn hafi hagsmuni fórnarlamba að leiðarljósi í afstöðu sinni eða hvort hann sé raunverulega að reyna að tryggja að skuggi falli ekki á Þjóðhátíð á meðan á henni stendur.
Páley vísar þeim ásökunum á bug. „Þetta er náttúrulega bara fáránlegt og fráleitt að halda þessu fram. Það er ótrúlegt að fólk skuli bera þetta á borð. Ég er auðvitað trú mínu starfi og vil gera það allra besta sem hægt er að gera í þessum málum og vil vinna þetta af heiðarleika og mikilli fagmennsku. Eitt af því sem ég tel okkur geta gert betur gagnvart þolendum er að vernda þá frá fyrstu stigum og upplýsa fjölmiðla ekki jafnóðum um þessi brot,“ segir Páley í samtali við mbl.is.
Aðspurð hvaða fagaðilar hafi verið hafðir með í samráði vegna verklags embættisins um að tilkynna ekki strax um kærð kynferðisbrot á hátíðinni segir Páley þá vera marga. „Við erum með doktor í klínískri sálfræði sem stýrir sálgæsluteyminu, við störfum með félags- og fjölskyldusviði Vestmannaeyjabæjar sem og yfirfélagsráðgjafa. Þessir ferlar eru unnir í samráði við þá. Heilbrigðisstofnunin hefur líka verið sammála þessum ferlum auk fjölmargra annarra,“ segir Páley og kveður verkferla lögreglunnar í kynferðisbrotamálum vera þá sömu allt árið um kring.
Ég get því miður ekki tryggt það að aldrei komi framar fram kynferðisbrot í umdæminu mínu. Það getur enginn lögreglustjóri gert þótt það sé óskandi. Fyrst og fremst þurfum við fræðslu, það þarf að fræða fólk til að reyna að koma í veg fyrir að það verði til gerendur, það þarf að fræða fólk um alvarleika þessara brota og þær alvarlegu afleiðingar sem þau hafa á þolendur. Það er það besta sem við getum gert öll saman, að halda þessari fræðslu áfram,“ segir Páley að lokum.