Fella mannréttindasáttmála úr gildi

AFP

Tyrknesk stjórnvöld munu fella mannréttindasáttmála Evrópu tímabundið úr gildi í landinu í kjölfar valdaránstilraunarinnar misheppnuðu í síðustu viku.

Numan Kurtulmus, varaforsætisráðherra Tyrklands, sagði í morgun að Tyrkir myndu feta í fótspor Frakka frá því í nóvember í fyrra, þegar lýst var yfir neyðarástandi í landinu í kjölfar voðaverkanna í París.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti í gærkvöldi yfir neyðarástandi í landinu í þrjá mánuði. Sagði hann það nauðsynlegt til þess að gera yfirvöldum kleift að „fjarlægja strax alla þá“ sem tóku þátt í valdaránstilrauninni.

Í 15. grein mannréttindasáttmála Evrópu segir að á tímum styrjaldar eða annars almenns neyðarástands, sem ógnar tilveru þjóðarinnar, geti samningsaðili tekið til ráðstafana sem víkja frá skyldum hans samkvæmt sáttmálanum, að því marki sem ýtrasta nauðsyn krefur til þess að firra áföllum.

Haft er eftir Kurtulmus í tyrkneskum fjölmiðlum að neyðarástandinu gæti varað í aðeins einn og hálfan mánuð. Hann sagði jafnframt að vinna væri nú hafin við að endurskipuleggja tyrkneska herinn, en þúsundir hermanna hafa verið handteknir og hnepptir í varðhald á undanförnum dögum.

Frétt Reuters

mbl.is