Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hefur skorað á Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra að krefjast þess að tyrknesk yfirvöld sýni mannúð og stillingu og virði mannréttindi borgara sinna, í kjölfar valdaránstilraunar þar í landi.
„Sameiginlegur þrýstingur lýðræðisríkja skiptir þar miklu og þar getur Ísland haft frumkvæði, meðal annars á vettvangi Atlandshafsbandalagsins, NATO, þar sem bæði Ísland og Tyrkland eru meðal aðildarþjóða,“ segir í ályktun félagsins.
Ályktunin í heild:
Undanfarna daga hafa um 50 þúsund Tyrkir verið handteknir eða sagt upp störfum í kjölfar valdaránstilraunarinnar þar í landi síðastliðinn föstudag. Ljóst er að í þessum pólitísku hreinsunum er brotið á mannréttindum fjölda Tyrkja og öll möguleg andstaða kæfð í þeirri viðleitni að styrkja stöðu ríkjandi valdhafa.
Stjórn Samfylkingarfélagins í Reykjavík skorar á Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra, að krefjast þess að tyrknesk yfirvöld sýni mannúð og stillingu og virði mannréttindi borgara sinna. Sameiginlegur þrýstingur lýðræðisríkja skiptir þar miklu og þar getur Ísland haft frumkvæði, meðal annars á vettvangi Atlandshafsbandalagsins, NATO, þar sem bæði Ísland og Tyrkland eru meðal aðildarþjóða. Íslensk stjórnvöld geta ekki fylgst með og ekkert aðhafst þegar gróf mannréttindabrot tyrkneskra stjórnvalda blasa við í þeim pólitísku hreinsunum sem nú standa yfir.