Hleypi „nýju blóði" í herinn

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, fyrir miðju, segir ekkert hindra tyrknesk …
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, fyrir miðju, segir ekkert hindra tyrknesk stjórnvöld í að framlengja neyðarlögin sem gildi taka í landinu í dag. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hét því að endurskipuleggja her landsins og hleypa „nýju blóði“ þar inn. Neyðarlög tóku gildi í landinu í morgun í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar sl. föstudag. Erdogan sagði þá ekkert hindra stjórnvöld í að framlengja neyðarlögin.

Erdogan lét ummælin falla í viðtali við Reuters-fréttastofuna, og er það fyrsta viðtal forsetans frá því hann lýsti yfir neyðarástandi í landinu. Stjórnvöld í Tyrklandi reyna nú að sannfæra íbúa landsins, sem og umheiminn allan, um að Tyrkland sé enn lýðræðisríki og að kúgunarstjórn í anda fyrri tíma sé ekki á dagskrá.

Erdogan sakar tyrkneska klerkinn Fethullah Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, um að standa að baki valdaránstilrauninni. Yfir 60.000 meintir stuðningsmenn Gulen hafa verið ýmist handteknir, reknir úr starfi eða sæta nú rannsókn yfirvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar.

Vestræn ríki hafa lýst yfir miklum áhyggjum af óstöðugleika og mannréttindum í Tyrklandi, þar sem um 80 milljónir manna búa. Tyrkland hefur verið mikilvægur liður í baráttu bandaríska hersins gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og þá hafa samningar Evrópusambandsins við Tyrkland verið mikilvægur liður í tilraunum sambandsins til að stemma stigu við stöðugum flóttamannastraumi frá Sýrlandi og öðrum ríkjum eins og Afganistan og Írak.

Erdogan sagði herráði Tyrklands nú stjórnað af forsætisráðherra landsins, en auk þess ættu varnarmálaráðherra og herráðsforingi þar sæti. Þeirra hlutverk yrði að hafa yfirumsjón með breytingum á herafla landsins.

„Þeir vinna nú saman að því að skoða hvað er hægt að gera og nýtt skipulag mun líta dagsins ljós fljótlega. Með þessu nýja skipulagi mun herinn fá inn nýtt blóð,“ sagði Erdogan við Reuters.

Hann sagði nýja valdaránstilraun mögulega verða gerða, en yfirvöld séu nú betur á verði gagnvart slíku.

„Það er alveg ljóst að það voru gloppur og gallar í upplýsingaöflun okkar, það er tilgangslaust að reyna að leyna því,“ sagði Erdogan.

Það sé heldur ekkert sem hindri stjórnvöld í að framlengja neyðartilskipunina umfram þá þrjá mánuði sem hún á nú að gilda. Að mati Reuters eru þau ummæli forsetans líkleg til að  auka á áhyggjur þeirra sem þegar hafa óttast afleiðingar herferðar Erdogans.

Neyðarlögin heimila stjórnvöldum að grípa til skjótra aðgerða gegn meintum stuðningsmönnum valdaránsins, en 246 manns létust í valdaránstilrauninni og 2.000 slösuðust. Neyðarlögin gera forsetanum og stjórn hans einnig kleift að samþykkja ný lög og hefta mannréttindi og frelsi íbúa eftir því sem þau telja tilefni til, án þess að til þurfi samþykki þingsins.

mbl.is