Alþjóðaferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur undirritað samkomulag við Tyrkland um að hjálpa landinu við að auka ferðamannastrauminn til landsins.
Mikið hefur gengið á í Tyrklandi að undanförnu. Tíðar sjálfsmorðssprengjuárásir hafa verið gerðar undanfarið ár, þar á meðal á flugvellinum í Istanbúl, og núna síðast misheppnuð valdaránstilraun.
Stofnunin, sem er staðsett í Madrid á Spáni, mun miðla sérfræðiþekkingu sinni í til tyrkneskra stjórnvalda í stefnumótum, samskiptum og markaðsmálum.
Stofnunin mun einnig aðstoða Tyrki við að fjölga flugferðum frá lykilmörkuðum í Evrópu.
„Tyrkland skiptir okkur miklu máli,“ sagði Taleb Rifai, framkvæmdastjóri Alþjóðaferðamálastofnunarinnar, eftir að samkomulagið var í höfn.
„Almenningur í Tyrklandi brást við af hugrekki þegar hann varði lýðræði landsins í síðustu viku. Okkar verkefni í dag er að sýna stuðning okkar í verki með því að styðja við bakið á einum mikilvægasta iðnaðinum í landinu, sem er ferðamálaiðnaðurinn. Saman viljum við senda heiminum skilaboð um að Tyrkland sé mætt aftur og tilbúið til að taka á móti gestum,“ sagði Rifai.
Helstu borgir Tyrklands breyttust í vígvelli 15. júlí þegar misheppnuð valdaránstilraun sem var beint gegn forsetanum Recep Tayyip Erdogan mistókst.
Tilraunin hefur grafið undan ferðamannaiðnaðinum í Tyrklandi. Áður höfðu sprengjuárásir skotið ferðamönnum skelk í bringu, þar á meðal ein í júní þegar 47 manns létust á aðalflugvellinum í Istanbúl.
Um átta prósent af vinnuafli Tyrkja starfa í ferðamannaiðnaðinum.