Tyrkneskur ráðherra jós í dag skömmum yfir leiðtoga Vesturlanda og furðaði sig á því af hverju þeir hefðu ekki lagt leið sína til Tyrklands undanfarna daga, eða í það minnsta sent fulltrúa sína, til þess að lýsa yfir samstöðu með þjóðinni í kjölfar valdaránstilraunarinnar misheppnuðu.
Leiðtogar Vesturlanda hafa lýst yfir stuðningi við lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Tyrklandi, en þau hafa jafnframt viðrað áhyggjur sínar af pólitískum hreinsunum Recep Tayyip Erdogans, forseta Tyrklands, sem beinast fyrst og fremst að þeim sem tóku þátt í valdaránstilrauninni sem og stuðningsmönnum klerksins Fethullah Gulens.
Erdogan sakar Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, um að hafa staðið á bak við tilraunina.
„Við erum steinhissa yfir því að bandamenn okkar hafa ekki komið í heimsókn til Tyrklands nú þegar vika er liðin,“ sagði Omur Celik, ráðherra Evrópumála, í samtali við blaðamenn í Ankara í dag.
Hann bætti því við að aðildarríki Atlantshafsbandalagsins þyrftu að vinna með tyrkneskum stjórnvöldum og vísaði meðal annars til baráttunnar gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.
NATO-ríkið Tyrkland á næststærsta herinn í bandalaginu en ríkið á auk þess í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.