Öryggissveit Erdogans leyst upp

AFP

Öryggissveit Receps Tyyips Erdogans, forseta Tyrklands, verður leyst upp eftir að tæplega 300 hermenn úr henni voru handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar misheppnuðu í síðustu viku.

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, sagði í viðtali við tyrkneska sjónvarpsstöð í gærkvöldi að „engin þörf“ væri fyrir öryggissveitina.

Fyrr um daginn handtóku tyrknesk stjórnvöld náskyldan frænda klerksins Fethullahs Gulens, sem þau saka um að hafa staðið á bak við valdaránstilraunina.

Lykilráðgjafi Gulens var jafnframt handtekinn í gær, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Erdogan hefur staðið fyrir miklum pólitískum hreinsunum í kjölfar þess að valdaránstilraunin var brotin á bak aftur fyrir rúmri viku. Um sex þúsund opinberir starfsmenn hafa verið handteknir eða reknir úr starfi, þar á meðal kennarar, hermenn, ráðuneytisstarfsmenn og lögreglumenn.

Erdogan lýsti yfir þriggja mánaða neyðarástandi í landinu á miðvikudag. Um leið voru samþykkt ný neyðarlög sem veita tyrkneskum stjórnvöldum ríkar heimildir til þess að setja lög, án aðkomu þingsins, og skerða frelsi og borgaraleg réttindi manna.

mbl.is