Tyrknesk yfirvöld hafa gefið út handtökuskipanir á hendur 42 blaðamönnum í landinu en það er hluti af rannsókn á valdaránstilrauninni í landinu um síðustu helgi.
Meðal þeirra sem á að handtaka er blaðamaðurinn Nazli Ilicak sem var rekinn úr starfi sínu á fréttastöðinni Sabah Daily árið 2013 eftir að hann gagnrýndi ráðherra sem höfðu tekið þátt í spillingu. Samkvæmt frétt AFP hafa handtökurnar ekki enn átt sér stað.
Tæplega 300 manns létu lífið í valdaránstilrauninni þegar hópur innan Tyrklandshers reyndi að ná völdum í landinu og steypa forseta landsins, Recep Tayyip Erdogan, af stóli. Ríkisstjórn hans hefur lengi verið gagnrýnd fyrir ritskoðun á fjölmiðlum og skert upplýsingafrelsi í landinu.
Þúsundir manna hafa verið handteknar eða vikið úr starfi eftir valdaránstilraunina, þar af eru að minnsta kosti sextíu þúsund ríkisstarfsmenn.