Um 1,5% tyrkneska hersins tóku þátt í valdaránstilrauninni í landinu fyrr í mánuðinum og höfðu 35 flugvélar, 37 þyrlur, 74 skriðdreka og þrjú skip í vopnabúri sínu. BBC greinir frá þessu og hefur eftir yfirlýsingu frá tyrkneska hernum.
Segir þar að 8.651 hafi tekið þátt í tilrauninni, þar af 1.214 nemar innan hersins sem hafi slegist í hóp uppreisnarmannanna.
Um 16.000 manns hafa verið handteknir í kjölfar tilraunarinnar og hafa nú 47 blaðamenn bæst í þann hóp, en áður höfðu 42 blaðamenn verið handteknir.
Erdogan Tyrklandsforseti hefur heitið því að hreinsa ríkisstofnanir af þeirri „veiru“ sem kom uppreisninni af stað.
Að minnsta kosti 246 létu lífið og yfir 2000 særðust í átökunum sem fylgdu tilrauninni.