Útvarpskonan Margrét Erla Maack komst í kastljós fjölmiðla í síðustu viku eftir að hafa minnt fólk „á að nauðga bara heima hjá sér í Vestmannaeyjum,“ í beinni útsendingu í Morgunútvarpinu á Rás 2. Í kjölfarið fékk hún fern skilaboð með nauðgunarhótunum.
Frétt mbl.is: Einfaldlega nóg boðið
Ummæli Margrétar voru sett fram í kaldhæðni og sem vísun í viðbrögð lögreglustjórans Páleyjar Borgþórdóttur við fyrirspurnum fjölmiðla um upplýsingagjöf yfir þjóðhátíð. Margrét baðst afsökunar á ummælum sínum samdægurs en fékk þó sterk viðbrögð úr ýmsum áttum sem hún segir frá í Kjaftæði Kjarnans í dag.
„Áttundu viðbrögð voru hin klassísku ÞAÐ ÞYRFTI NÚ BARA AÐ NAUÐGA ÞÉR. Ég fékk samtals fern svoleiðis skilaboð tvö á feisaranum og tvo tölvupósta,“ skrifar Margrét.
Hún birtir ein skilaboðana, sem hún segir í uppáhaldi þar sem þau „kjarni þetta allt svo fallega“ auk þess sem þau hafi verið þau einu sem voru rétt skrifuð en í þeim stóð: „Réttast væri að nauðga þér 101 píkan þín.“
„Kæri vinur, það er bara búið að því, fyrir 15 árum síðan, og ekki hjálpar það mér til að halda kjafti í dag. Þess ber að geta að ég og nauðgarinn minn höfum farið yfir þetta mál og talað út um það. Hann hefur beðist afsökunar og axlað ábyrgð,“ skrifar Margrét.
Hún segir þá sem sendu skilaboðin vera sjálfum sér til skammar og hafi eyðilagt fyrir öllum þeim Vestmannaeyingum sem hún muni „matcha“ við á stefnumótaforritinu Tinder í framtíðinni. Þá bætir hún því við að þeir sem ætli sér að senda konum út í bæ nauðgunarhótanir ættu að taka bleika fílinn, tákn baráttuhóps þjóðhátíðar gegn kynferðisofbeldi, sem prófílmynd.
„Djamm- og djúshátíðir snúast um þrennt: Drekka, dópa og ríða. Mér finnst allt þetta bara mjög spennandi. Hins vegar er hræðilegt fyrir PR-ið ef neðanbeltisgamanið kárnar. Þess vegna skynja ég svo afar heitt að ákvörðun um að geyma upplýsingar um kynferðisbrot snerist ekki um að vernda fórnarlömb, heldur að bíða eftir að fallið yrði frá kærum – og því hægt að segja frá færri brotum en voru fyrst tilkynnt. Það væri nefnilega svo bagalegt að sjá nafn hátíðarinnar og orðið „nauðgun“ í sömu setningu,“ skrifar Margrét.
„Málið snýst þó ekki eingöngu um Vestmannaeyjar og viðbrögðin þar. Verslunarmannahelgin og nauðganir eru fyrir löngu komin í sama hugsanaklasa í höfðinu á mér. Þetta snýst um að það sé orðið sjálfsagt að kynferðisbrot eigi sér stað þegar fólk komi saman til að skemmta sér og að enn finnist okkur of vandræðalegt að ræða þetta mál til að geta komið í veg fyrir brotin, hvað þá hugað almennilega að þolendum.
Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér og enginn nauðgi um helgina, hvorki í Vestmannaeyjum né annars staðar. Og ef þér, kæri lesandi, verður nauðgað þá skemmir þú ekki partýið með því að tilkynna glæpinn.“
Á Kjarnanum má lesa pistil Margrétar í heild sinni.