Mikil stemmning var í Landeyjahöfn klukkan 10 í morgun þegar Þjóðhátíðarfarar gerðu sig tilbúna til brottfarar. Viðmælendur mbl.is voru sammála um að það væri alls ekki of snemmt fyrir einn kaldan, „það er nú einu sinni Þjóðhátíð“.
Gera má ráð fyrir því að um 15 þúsund manns leggi leið sína til Vestmannaeyja um helgina, og taki þátt í þessari stærstu helgi Eyjamanna. Mbl.is fylgdi ferðalöngunum úr hlaði.
Meðal þeirra hljómsveita sem koma fram á hátíðinni í ár eru Agent Fresco, Úlfur Úlfur, Quarashi og Retro Stefson. Auk þess munu Jón Jónsson, Emmsjé Gauti, Friðrik Dór, Ragga Gísla, Helgi Björns, Stop Wait Go, FM95BLÖ, Rigg, Júníus Meyvant, Sverrir Bergmann, Sylvía og Sindri Freyr stíga á stokk.
Dagskrá Þjóðhátíðar má nálgast hér.
Veðurspáin fyrir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum lítur mjög vel út fyrir daginn í dag og á morgun; léttskýjað eða skýjað og hiti 11 til 13 stig.
Á sunnudag má hins vegar búast við skúraklökkum sunnan- og vestanlands, en þeir munu líklega halda sig meira inni á landinu en í Eyjum. Það gæti því gert skúraveður en eins er möguleiki á að Vestmannaeyjar sleppi við úrkomu þá.
Á mánudag má búast við enn meiri raka og skúrum um allt land, þar á meðal í Eyjum. Meira þegar líður á daginn, svo það er um að gera fyrir Þjóðhátíðargesti að pakka tjöldunum snemma, sé þess kostur og verði þurrt.