Töluverður umferðarstraumur er nú í gegnum Borgarnes, að sögn lögreglunnar í bænum, sem kveður strauminn liggja norður eftir. Nokkuð þétt umferð er nú einnig í gegnum Blönduós, en þar telja menn líklegt að umferðarþunginn verði í suðurátt.
Lögreglan í Borgarnesi segir umferðina ganga vel, lítið hafi þurft að hafa afskipti af ökumönnum, sem virðist meðvitaðir um að sýna þurfi þolinmæði í verslunarmannaumferðinni.
Töluverður fjöldi fólks er einnig samankominn í Borgarnesi, þar sem Unglingalandsmót UMFÍ fer fram í bænum þessa helgi. Sérstakt tjaldsvæði var sett upp fyrir mótsgesti sem tóku að mæta á svæðið í gær og hefur mótshald farið vel fram til þessa.
Lögreglan á Blönduósi segir töluverða umferð á leið í gegnum bæinn nú og svo hafi einnig verið í gær. Umferðarstraumurinn lá bæði til norðurs og suðurs í gær, en í dag telja lögreglumenn umferðarþungann líklegri til að liggja í suðurátt sé veðurspá helgarinnar höfð í huga.