13 ára fór holu í höggi

Björn Viktor Viktorsson segir að það hafi verið geggjuð tilfinning …
Björn Viktor Viktorsson segir að það hafi verið geggjuð tilfinning að fara holu í höggi. Ljósmynd/ Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Flesta kylfinga dreymir um að fara einhvern tímann holu í höggi. Björn Viktor Viktorsson, kylfingur hjá GL, sem keppir í aldursflokki 11-13 ára, náði takmarkinu í gær þegar hann fór holu í höggi í golfi á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi.  

Viðstaddir lýstu atvikinu á þann veg að engu líkara væri en Björn Viktor hefði verið að spila körfubolta en ekki golf; kúlan rann ekki eftir vellinum þar til hún lenti í holunni heldur fór í einu skoti beint niður eins og góð þriggja stiga karfa án viðkomu á flötinni. Áfanganum náði Björn Viktor Viktorsson á 14. braut á Hamarsvelli.

„Þetta var alveg geggjað,“ sagði Björn Viktor þegar mbl.is spurði hann hvernig tilfinningin hefði verið og kveðst ekki hafa átt von á þessu. Björn Viktor er 13 ára og keppti í aldursflokknum 11-13 ára.

Hann er með 13 í forgjöf og hefur æft golf frá því hann var sjö ára. 

Björn Viktor segist staðráðinn í að leika þetta eftir einhvern tímann aftur.

Láta Einherjaklúbbinn vita

„Þetta er ekkert sérstaklega erfið braut,“ segir Björn Viktor um 14. brautina. „Ég hef spilað nokkrum sinnum á Hamarsvellinum áður og finnst hann skemmtilegur.“

Þetta er í þriðja skipti sem Björn Viktor tekur þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ, en hann æfir golf yfir sumartímann og að vetrarlagi þegar færi gefst. „Þetta var hörð samkeppni eins og alltaf en ég hafði mjög gaman af.“

Björn Viktor kveðst ekki vita til þess að hann fái nein verðlaun fyrir holuna. „En þeir voru að tala um það í golfklúbbnum að þeir þyrftu að senda inn tilkynningu í Einherjaklúbbinn.“

mbl.is