Góð stemning í Eyjum

„Hún er mjög góð, ég held það sé ekki hægt að segja neitt annað,“ segir Hörður Orri Grettisson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar, spurður um stemninguna í Eyjum.

Á þriðja þúsund munu bætast við gesti Þjóðhátíðar í dag, fyrir lokakvöld hátíðarinnar, en segja má að brekkusöngurinn sé eins konar hápunktur hennar. „Það er yfirleitt þannig að þetta nær hámarki í dag. Það verður mjög fjölmenn brekka í kvöld þegar Ingó stígur á svið klukkan 11.“

Hörður segir hátíðina svipaða og síðustu ár að mestu leyti, bæði í framkvæmd og mannfjölda. Þó sjáist vel í ár sú áhersla sem lögð hefur verið á forvarnir í kringum hátíðina. „Tónlistarmenn og kynnir hátíðarinnar eru duglegir að segja fólki að kynferðisofbeldi og annað ofbeldi sé ekki liðið.

Þetta er mjög gaman og lítur vel út. Vonandi verður það þannig áfram.“

mbl.is