Fyrsta helgin í ágúst, sem er helgin á undan frídegi verslunarmanna, er þekkt undir nafninu verslunarmannahelgin. Frídagur verslunarmanna er almennur frídagur á Íslandi, en hver er saga dagsins og af hverju er frí einmitt þennan dag?
Á þessum degi er löng hefð fyrir hátíðahöldum og ferðast margir út á land á þær fjölmörgu hátíðir sem finna má. Meðal annars er hægt að nefna Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Unglingamót UMFÍ í Borgarnesi, Síldarævintýrið á Siglufirði, Neistaflug í Neskaupstað, Innipúkann og Mýrarboltann.
Dagsetning verslunarmannahelgarinnar hefur haldist óbreytt frá árinu 1934, samkvæmt því sem fram kemur á Vísindavefnum. Þar segir að fyrir þann tíma hafi verslunarmenn í Reykjavík átt frídag á ýmsum öðrum dögum. Á vef Wikipedia segir að frídagur verslunarmanna hafi verið tekinn upp af Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og að hann hafi verið ætlaður starfsfólki verslana að danskri fyrirmynd en þá hafi ekki verið gert ráð fyrir neinu sérstöku orlofi starfsfólks. Fyrsti frídagur verslunarmanna hafi verið haldinn hátíðlegur hinn 13. september 1894.
Sú tímasetning á frídegi verslunarmanna sem við þekkjum í dag, fyrsti mánudagurinn í ágúst, á rætur að rekja til þjóðhátíðarinnar 2. ágúst 1874. Hennar var reglulega minnst í Reykjavík í kringum aldamótin og héldu verslunarmenn löngum tryggð við daginn eftir að fullveldisdagurinn var tekinn við sem helsti þjóðminningardagur upp úr 1918.
Eftir síðari heimsstyrjöld hafi svo frídagur verslunarmanna smám saman orðið almennur frídagur og fór dagurinn að þróast á þann veg að fólk notaði hann til ferðalaga og skemmtanahalds.
Skipulagðar útihátíðir og dagskrá á vegum bæja og sveita hafi svo komið fram á sjónarsviðið á sjötta áratug síðustu aldar.
Eins og fyrr segir var fyrsti frídagur verslunarmanna í Reykjavík haldinn hinn 13. september. Var útiskemmtun haldin þann dag í Ártúni við Elliðaár. Á Vísindavefnum segir að hátíðin hafi hafist um hálftólf. Á dagskrá voru ræðuhöld, söng- og lúðraspil, kapphlaup, matur og dans til klukkan sjö þegar lagt var af stað til Reykjavíkur „með söng og hljóðfæraslátt í broddi fylkingar“.
Sumarið eftir var skemmtunin haldin á sama stað en dagsetningin var nær því sem við þekkjum í dag, 14. ágúst.
Árin eftir voru gerðar tilraunir til að sameina skemmtanir undir nafni þjóðhátíðar en árið 1902 drógu verslunarmenn sig út úr þjóðhátíðarnefndinni. Segir á Vísindavefnum að ástæðan hafi verið sú að bindindismen hafi komist þar í meirihluta og ákveðið að ekkert vín yrði á boðstólum á hátíðinni.
Ákváðu verslunarmenn þá að fara í skemmtiferð hinn 17. ágúst með gufubátnum Reykjavík inn að Þyrli í Hvalfirði þar sem dvalist var með dansi og leikjum. Buðu verslunarmenn þar upp á meðal annars áfenga drykki.
Árin eftir héldu verslunarmenn hátíðir og sumarskemmtanir í nágrenni Reykjavíkur. Voru slíkar hátíðir haldnar í Kópavogi árið 1908 og í Vatnaskógi við Hvalfjörð 1918.
Veturinn 193-1934 var ákveðið að frídagur verslunarmanna skyldi vera fyrsti mánudagurinn í ágúst og hefur sá dagur verið frídagur síðan.
Árið 1935 sá Verslunarmannafélag Reykjavíkur um útisamkomu á Þingvöllum og stóð sú tilhögun allt fram að seinni heimsstyrjöldinni.
Á Vísindavefnum segir að sprenging hafi orðið í útihátíðahaldi um verslunarmannahelgina árið 1967 þegar átta útihátíðir voru haldnar víðs vegar um land og talið er að um 36 þúsund manns hafi tekið þátt í þeim. Suma staðina sem þá voru notaðir undir hátíðahöld kannast fólk við; Atlavík, Bjarkalund, Skógarhóla og Galtalækjarskóg.
Sjá umfjöllun Vísindavefjarins.