Neistaflug í Neskaupstað fer nú fram í 24. sinn um verslunarmannahelgi. Fjölbreytt dagskrá hefur verið á boðstólum um helgina, fastir liðir eins og vanalega auk nýrra dagskrárliða.
„Það er bara búið að ganga alveg frábærlega á Neistaflugi, það hefur allt gengið eins og í sögu,“ segir Svanlaug Aðalsteinsdóttir, formaður Neistaflugsnefndar, í samtali við mbl.is. Hún segir dagskrána hafa verið svolítið öðruvísi en undanfarið, töluvert sé af nýjum viðburðum og dagskráin fer fram víða um bæinn svo ekki eru alltaf allir á sama stað í einu.
Kassabílarall var haldið í fyrsta sinn í ár og voru þátttakendur um 80 talsins. Hátíðarnefnd Neistaflugs smíðaði fimm kassabíla fyrir keppnina en einhverjir komu með sinn eigin.
Fastir dagskrárliðir voru á sínum stað og ber þá einna helst að nefna félagana þá Gunna og Felix sem komu fram í sautjánda sinn á hátíðinni í ár. „Án þeirra væri þessi hátíð náttúrlega bara ekki söm. Þeir eru fastagestir,“ segir Svanlaug létt í bragði.
Góð þátttaka er á hátíðinni þar sem heimamenn, brottfluttir Norðfirðingar og aðrir gestir taka þátt í hátíðahöldunum í veðurblíðunni. „Það var bara sól og blíða og 15 stiga hiti þegar það spáði nú mest rigningunni hérna,“ segir Svanlaug. Nokkur rigning var þó í morgun og dálítil súld og þokuloft í dag en ekkert sem ekki má klæða af sér.
Annar fastur liður á hátíðinni er Barðsneshlaupið svokallaða þar sem hlaupið er um tvo eyðifirði. Lengri leiðin er hvorki meira né minna en 24 kílómetrar en sú styttri 13 km en þetta er í tuttugasta sinn sem hlaupið er haldið.
Hátíðahöld hafa að sögn Svanlaugar farið ákaflega vel fram. Einhver erill var þó hjá lögreglunni í nótt en Svanlaug segist ekki hafa orðið vör við mikil ólæti.
Í kvöld fer fram kvöldvaka á gervigrasvellinum en hún hefur ekki verið haldin þar áður. Þar verður brekkusöngur og fram kemur fjöldi listamanna. Nánar um dagskrá Neistaflugs má lesa á heimasíðu hátíðarinnar.