Unglingalandsmót gengið vel

Ljósmynd/UMFÍ

Mikið gaman er í Borgarnesi þar sem lokadagur unglingalandsmóts UMFÍ er í dag. Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ, segir mótið hafa gengið vel fyrir sig og verið alveg laust við vandræði.

Keppni hóst klukkan átta í morgun og segir Jón íþróttir og afþreyingu verða fram eftir degi og langt fram á kvöld. Klukkan 18 í dag verður slökkt á mótseldinum, sem kveiktur var á föstudaginn, og síðan tekur við kvöldvaka á tjaldstæðinu, þar sem Amabadama og Dikta koma fram. „Klukkan hálftólf eru síðan formleg mótsslit og þá verður flugeldasýning, stór og mikil.“

Veður hefur verið gott á mótinu um helgina, þótt aðeins hafi blásið að sögn Jóns. „Ekkert rok, bara gola. Það var rosahiti í gær og ég hitti nokkra brennda í dag. Þeir fengu lit.“

Minni stælar á landsmóti en Ólympíuleikunum

Frjálsíþróttalýsandinn Sigurbjörn Árni Arngrímsson er meðal gesta í Borgarnesi um helgina, en þetta er langt frá því að vera hans fyrsta landsmót.

„Ég kom á fyrsta landsmótið 1987 á Húsavík, fullorðinslandsmótið, og hef farið á þau öll síðan. Ég var síðan þjálfari á fyrsta unglingalandsmótinu 1992 á Dalvík og hef svo farið á nokkur slík síðan og sem foreldri síðan 2014.“

Sigurbjörn Árni á unglingalandsmóti UMFÍ um helgina.
Sigurbjörn Árni á unglingalandsmóti UMFÍ um helgina. Ljósmynd/Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Sigurbjörn segir þetta alls ekki vera sitt síðasta landsmót, það sé nóg eftir. „Yngsta barnið mitt er bara sex ára svo þetta verða alla vega 12 ár í viðbót.“ Spurður hvort alltaf sé jafngaman á mótunum segir hann svo vera, sérstaklega þegar ekki rigni. „Sól, heilbrigt líferni, góður félagsskapur, ekkert áfengi, þetta er bara algjörlega frábært í raun og veru.“

Í næsta mánuði hefjast síðan Ólympíuleikarnir í Ríó og styttist í að Sigurbjörn haldi til Brasilíu, þar sem hann mun lýsa leikunum. „Ég fer út 9. ágúst og er að fara að lýsa þar frjálsum, en reikna með að ég lendi líka í blaki og einhverju.“

Segja má að örlítið forskot hafi verið tekið á sæluna um helgina, þegar Sigurbjörn lýsti 100 metra hlaupi landsmótsins. „Vinur minn sem er ein sprautan í frjálsíþróttakeppninni hérna sá mig niðri á velli og spurði hvort ég gæti ekki lýst þessu. Við fengum þetta flotta hlaup, það var reyndar ískalt en meðvindur góður. Við fengum hraðasta hlaup Íslandssögunnar, 10,38-10,39.“

Leikarnir í Ríó verða fjórðu Ólympíuleikar Sigurbjörns, en hann hefur farið á alla síðan þeir voru haldnir í Aþenu 2004. Spurður hvort sé skemmtilegra á landsmóti eða Ólympíuleikum svarar hann: „Ég verð nú eiginlega að segja að það sé svona keppnislega skemmtilegra á Ólympíuleikum, vegna árangursins og allrar umgjarðarinnar. Hins vegar er gaman að sjá á landsmótunum alla krakkana og drengilega keppni. Það eru minni stælar í íþróttamönnunum og það er alls ekki slæmt að vera á unglingalandsmóti.

Þetta er tvímælalaust ólíkt en samt sem áður sömu einkunnarorð: Það er aðalatriðið að vera með.“

mbl.is