Veðrið fram úr væntingum á Akureyri

Sólin lét sig ekki vanta á Akureyri um helgina þar …
Sólin lét sig ekki vanta á Akureyri um helgina þar sem Íslensku sumarleikarnir fóru fram. Ljósmynd/Halldór Óli Kjartansson

Formlegri dagskrá Íslensku sumarleikanna sem fram fóru á Akureyri um helgina lýkur í kvöld með tónlist, gleði og glaum. Undanfari Sumarleikanna var bæjarhátíðin Ein með öllu en í ár var dagskrá hátíðarinnar að mestu með óbreyttu sniði en með aukinni áherslu á íþróttir.

Flestir elta veðrið

Heldur færra fólk var á Akureyri um helgina en undanfarin ár og telja aðstandendur hátíðarinnar ljóst að þar spili veðurspáin fyrir helgina einna helst inn í. „Það er með þetta eins og allt annað, þegar fólk fer í ferðalag um verslunarmannahelgi þá eltir það veðrið,“ segir Halldór Óli Kjartansson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, í samtali við mbl.is.

Veðrið fór þó fram úr væntingum, sólin skein að mestu um helgina og var lítil sem engin rigning.

Fastir liðir voru á dagskrá hátíðarinnar, svo sem Íslandsmeistaramótið í fjallabruni og hljólreiðakeppni niður kirkjutröppurnar.  Á Akureyri eru að sögn Halldórs einstaklega góðar aðstæður til fjallahjólreiða, greinar sem hann telur fara vaxandi. „Þetta er alltaf rosalega skemmtilegt, eitthvað sem maður myndi væntanlega aldrei gera sjálfur en voðalega gaman að horfa á,“ segir Halldór, en keppnin gekk stórslysalaust fyrir sig.

Súlnahlaupið vakti lukku

Þá var Súlnahlaupið, Súlur Vertical-fjallahlaupið, haldið í fyrsta skipti í ár en hlaupið var frá ráðhústorginu í miðbæ Akureyrar og upp á bæjarfjallið Súlur og aftur til baka. Leiðin er 24 kílómetrar og hækkar um 1.200 metra á leiðinni. Sá fljótasti af tæplega 20 keppendum hljóp leiðina á undir tveimur klukkustundum. „Ég sjálfur er svona 4 tíma að hlaupa upp frá rótum fjallsins,“ segir Halldór, en það var þaulreyndi hlaupagarpurinn Þorbergur Ingi Jónsson sem sigraði í þessu fyrsta Súlnahlaupi.  

Sparitónleikarnir slá botninn í hátíðina

Síðasti og jafnframt stærsti dagskrárliður hátíðarinnar, Sparitónleikarnir, fer fram nú í kvöld þar sem hljómsveitin Skítamórall leikur fyrir dansi en fram koma einnig söngkonan Glowie, Úlfur úlfur, Köttur Gráa Pje og Stór­sveit Hvann­dals­bræðra. Þá verður flugeldasýning og munu smá­bát­ar bæj­ar­ins lita Poll­inn rauðan.

Heldur minna hefur verið um að vera hjá lögreglu vegna hátíðarinnar en undanfarin ár en þó einhver erill. Þó að hátíðin hafi verið með örlítið öðru sniði en áður var dagskráin að mestu óbreytt. Halldór Óli kveðst ánægður með hvernig til tókst um helgina og telur líklegt að hátíðin verði haldin áfram með þessu nýja sniði; fjölskylduvæn hátíð með aukinni áherslu á íþróttir fyrir alla aldurshópa.

mbl.is