Skipuleggjendur hátíðahalda verslunarmannahelgarinnar eru ánægðir með hvernig til tókst. Einstaklega gott veður var víðast hvar og var fjölmennt á bæjarhátíðum um landið.
„Það gekk allt eins og í sögu og nú vonumst við bara til þess að allir komist heilir heim,“ segir Thelma Rut Jóhannsdóttir, drullusokkur og skipuleggjandi Mýrarboltamótsins sem fór fram á Ísafirði um helgina.
Hún segir sólina hafa skinið í Tungudal þar sem mótið fór fram. Til leiks voru skráð 26 lið sem flest voru skipuð um 15 keppendum, en það eru fleiri en hefur verið undanfarin ár. Það voru heimaliðin FC drulluflottar í kvennaflokki og FC karaoke í karlaflokki sem báru sigur úr býtum.
„Þetta eru reynd lið. Þær hafa oft unnið og þeir tóku þátt í heimsmeistaramótinu í Finnlandi fyrir tveimur árum svo þetta eru algjörir reynsluboltar,“ segir Thelma um sigurvegarana.
Davíð Rúnar Gunnarsson, einn skipuleggjenda Íslensku sumarleikanna á Akureyri, segir allt hafa tekist vel til og veður hafi farið fram úr öllum væntingum. „Veðurspáin var hræðileg og í gær átti að vera fimm stiga hiti en við vorum hér í sextán stiga hita og sól,“ segir hann.
Undanfari Sumarleikanna var bæjarhátíðin Ein með öllu en í ár var dagskrá hátíðarinnar að mestu með óbreyttu sniði en með aukinni áherslu á íþróttir. „Þetta er mjög skemmtileg breyting. Það var magnað að sjá menn koma brunandi á fjallahjólum niður kirkjutröppurnar til dæmis,“ segir Davíð.
Hátíðinni lauk með stærsta dagskrárlið hátíðarinnar, Sparitónleikunum, þar sem hljómsveitin Skítamórall lék fyrir dansi. Fram komu einnig söngkonan Glowie, Úlfur úlfur, Kött grá pje og Stórsveit Hvanndalsbræðra. Þá var flugeldasýning og smábátar bæjarins lituðu Pollinn rauðan. „Þetta var æðislegt. Brekkan var alveg smekkfull og það voru örugglega hátt í átta þúsund manns,“ segir Davíð.
Á Siglufirði setti veðurspá hins vegar strik í reikninginn, en að sögn Kristins J. Reimarssonar, framkvæmdastjóra Síldarævintýrisins á Siglufirði, var hátíðin fámennari en síðustu ár. Hann ætlar að hátíðargestir hafi verið þúsund til fimmtán hundruð talsins og telur að fullyrða megi að veðrið hafi haft þar mest að segja.
Dagskránni lauk í gærdag, en ákveðið var að slíta hátíðinni fyrr en vanalega. Að sögn Kristins fór hún þó vel fram.
Þá sagði Bergsveinn Theodórsson, talsmaður hátíðahalda á Flúðum, í samtali við mbl.is fyrr í dag að mikil stemning hefði verið í bænum alla helgina, en frábært veður var á svæðinu.
Gærdagurinn hefði verið stórkostlegur, en þá náðu hátíðahöldin hápunkti. „Yfir daginn var mikið fjör þegar fjölskylduskemmtun var í gangi. Margir fylgdust með furðubátakeppninni en það voru fjórtán furðulegir bátar sem tóku þátt í henni,“ sagði Bergsveinn.
Gleðinni lauk svo með fjöldasöng við brennu í gærkvöldi og dansleik í félagsheimilinu þar sem Hreimur og Made-in Sveitin spiluðu fyrir dansi. „Gleðin sveif hreinlega yfir vötnum.“
Loks sagði Hörður Orri Grettisson, talsmaður Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is fyrr í dag að hátíðin hefði verið ein sú fjölmennasta frá upphafi. „Ég hef sjaldan séð brekkuna svona stóra.“
Hátíðin náði hámarki með brekkusöngnum sem hófst klukkan 23. Ingó veðurguð sá um brekkusönginn, en hann hefur séð um hann undanfarin ár. „Þetta var frábært. Veðrið var frábært og þetta var til fyrirmyndar,“ segir Hörður og bætir við að fjölmargir hafi bæst við á hátíðina í gær. Hann segist ekki vera viss um fjöldann, en hann hafi verið gríðarlegur.