Ánægja með hátíðir helgarinnar

Mikið líf og fjör var á mýrarboltanum á Ísafirði.
Mikið líf og fjör var á mýrarboltanum á Ísafirði. mbl.is/Sigurjón J. Sigurðsson

Skipu­leggj­end­ur hátíðahalda versl­un­ar­manna­helgar­inn­ar eru ánægðir með hvernig til tókst. Einstaklega gott veður var víðast hvar og var fjölmennt á bæjarhátíðum um landið.

Reynsluboltar unnu mýrarboltann

„Það gekk allt eins og í sögu og nú vonumst við bara til þess að allir komist heilir heim,“ segir Thelma Rut Jóhannsdóttir, drullusokkur og skipuleggjandi Mýrarboltamótsins sem fór fram á Ísafirði um helgina.

Hún segir sólina hafa skinið í Tungudal þar sem mótið fór fram. Til leiks voru skráð 26 lið sem flest voru skipuð um 15 kepp­end­um, en það eru fleiri en hef­ur verið und­an­far­in ár. Það voru heimaliðin FC drullu­flott­ar í kvenna­flokki og FC kara­oke í karla­flokki sem báru sig­ur úr být­um.

„Þetta eru reynd lið. Þær hafa oft unnið og þeir tóku þátt í heimsmeistaramótinu í Finnlandi fyrir tveimur árum svo þetta eru algjörir reynsluboltar,“ segir Thelma um sigurvegarana. 

Sól­in lét sig ekki vanta á Ak­ur­eyri um helg­ina þar …
Sól­in lét sig ekki vanta á Ak­ur­eyri um helg­ina þar sem Íslensku sum­ar­leik­arn­ir fóru fram. Ljós­mynd/​Hall­dór Óli Kjart­ans­son

Smekkfull brekka á Akureyri

Davíð Rúnar Gunnarsson, einn skipuleggjenda Íslensku sumarleikanna á Akureyri, segir allt hafa tekist vel til og veður hafi farið fram úr öllum væntingum. „Veðurspáin var hræðileg og í gær átti að vera fimm stiga hiti en við vorum hér í sextán stiga hita og sól,“ segir hann. 

Und­an­fari Sum­ar­leik­anna var bæj­ar­hátíðin Ein með öllu en í ár var dag­skrá hátíðar­inn­ar að mestu með óbreyttu sniði en með auk­inni áherslu á íþrótt­ir. „Þetta er mjög skemmtileg breyting. Það var magnað að sjá menn koma brunandi á fjallahjólum niður kirkjutröppurnar til dæmis,“ segir Davíð.

Hátíðinni lauk með stærsta dagskrárlið hátíðarinnar, Sparitónleikunum, þar sem hljómsveitin Skítamórall lék fyrir dansi. Fram komu einnig söng­kon­an Glowie, Úlfur úlf­ur, Kött­ grá pje og Stór­sveit Hvann­dals­bræðra. Þá var flug­elda­sýn­ing og smá­bát­ar bæj­ar­ins lituðu Poll­inn rauðan. „Þetta var æðislegt. Brekkan var alveg smekkfull og það voru örugglega hátt í átta þúsund manns,“ segir Davíð.

Síld og sól á Sigló.
Síld og sól á Sigló. ljósmynd/Af Facebooksíðu Síldarævintýrisins

Fámennt á Siglufirði

Á Siglufirði setti veðurspá hins vegar strik í reikninginn, en að sögn Kristins J. Reimarssonar, framkvæmdastjóra Síldarævintýrisins á Siglufirði, var hátíðin fámennari en síðustu ár. Hann ætl­ar að hátíðargest­ir hafi verið þúsund til fimmtán hundruð tals­ins og tel­ur að full­yrða megi að veðrið hafi haft þar mest að segja.

Dagskránni lauk í gærdag, en ákveðið var að slíta hátíðinni fyrr en vanalega. Að sögn Kristins fór hún þó vel fram.

Sálin hans Jóns míns lék fyrir dansi á laugardagskvöld á …
Sálin hans Jóns míns lék fyrir dansi á laugardagskvöld á Flúðum. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölmennt í sólinni á Flúðum

Þá sagði Bergsveinn Theo­dórs­son, talsmaður hátíða­halda á Flúðum, í samtali við mbl.is fyrr í dag að mikil stemning hefði verið í bænum alla helgina, en frábært veður var á svæðinu. 

Gær­dag­urinn hefði verið stór­kost­leg­ur, en þá náðu hátíða­höld­in hápunkti. „Yfir dag­inn var mikið fjör þegar fjöl­skyldu­skemmt­un var í gangi. Margir fylgd­ust með furðubáta­keppn­inni en það voru fjór­tán furðuleg­ir bát­ar sem tóku þátt í henni,“ sagði Berg­sveinn. 

Gleðinni lauk svo með fjölda­söng við brennu í gær­kvöldi og dans­leik í fé­lags­heim­il­inu þar sem Hreim­ur og Made-in Sveit­in spiluðu fyr­ir dansi. „Gleðin sveif hrein­lega yfir vötn­um.“

Það var fjölmennt í brekkunni.
Það var fjölmennt í brekkunni. mbl.is/Óskar P. Friðriksson

Ein fjölmennasta þjóðhátíð frá upphafi

Loks sagði Hörður Orri Grett­is­son, talsmaður Þjóðhátíðar í Vest­manna­eyj­um, í samtali við mbl.is fyrr í dag að hátíðin hefði verið ein sú fjölmennasta frá upphafi.  „Ég hef sjald­an séð brekk­una svona stóra.“

Hátíðin náði há­marki með brekku­söngn­um sem hófst klukk­an 23. Ingó veðurguð sá um brekku­söng­inn, en hann hef­ur séð um hann und­an­far­in ár. „Þetta var frá­bært. Veðrið var frá­bært og þetta var til fyr­ir­mynd­ar,“ seg­ir Hörður og bæt­ir við að fjölmargir hafi bæst við á hátíðina í gær. Hann seg­ist ekki vera viss um fjöld­ann, en hann hafi verið gríðarleg­ur.

mbl.is