„Ég held að það sé óhætt að segja að þetta hafi verið ein fjölmennasta þjóðhátíð frá upphafi,“ segir Hörður Orri Grettisson, talsmaður Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum, sem lauk í gærkvöldi. „Ég hef sjaldan séð brekkuna svona stóra.“
Hátíðin náði hámarki með brekkusöngnum sem hófst klukkan 23. Ingó veðurguð sá um brekkusönginn, en hann hefur séð um sönginn undanfarin ár. Að mati lögreglunnar í Vestmannaeyjum er hátíðin sú næst fjölmennasta sem haldin hefur verið en talið er að um 15.000 gestir hafi verið á brekkusöngnum.
„Þetta var frábært. Veðrið var frábært og þetta var til fyrirmyndar,“ segir Hörður og bætir við að fjöldi fólks hafi bæst við á hátíðina í gær. Hann segist ekki vera viss um fjöldann, en hann hafi verið gríðarlegur.
Fjöldinn allur af tónlistarfólki skemmti gestum í gærkvöldi. Hljómsveitin Albatross, með Halldór Gunnar Pálsson í fararbroddi, steig á pall ásamt gestum; Friðriki Dór, Sverri Bergmann, Helga Björns og Röggu Gísla. Þá komu Stuðlabandið, Dans á rósum og Brimnes einnig fram og léku fyrir dansi.
Hörður segir skipuleggjendur mjög ánægða með það hvernig tókst til, og mikil gleði hafi ríkt í eynni. „Maður er hálfauðmjúkur eftir svona, þegar það kemur svona mikið af fólki saman og skemmtir sér og langflestir eru til fyrirmyndar,“ segir hann að lokum.
Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum var síðasta nótt róleg framan af en þegar líða tók á nóttina þurfti lögreglan að sinna mörgum útköllum. Um var að ræða ölvunarvandræði og slagsmál. Nú gista 5 einstaklingar fangageymslur vegna nokkurra mála. Þrír kærðu líkamsárás síðasta sólarhring og er ein þeirra alvarleg þar sem maður kjálkabrotnaði. Árásin átti sér stað á tjaldstæði í bænum. Sakborningur var handtekinn og gistir hann fangageymslu vegna rannsóknar á málinu.
Níu fíkniefnamál komu upp frá því í gærdag, þar af grunur um sölu í nokkrum málum. Haldlögð efni voru amfetamín, kókaín, kannabis og E-töflur. Mest voru þetta neysluskammtar. Fjöldi mála er svipaður nú og undanfarin ár að undanskildum málafjölda í fyrra.
Gestir á hátíðinni eru nú farnir að streyma til síns heima og fór Herjólfur sína fyrstu ferð kl. 02:00 í nótt og mun hann sigla 11 ferðir í dag til að flytja gesti þjóðhátíðar upp á fasta landið. Þá fer flugfélagið Ernir margar ferðir í dag.