Franskur saksóknari vísaði í dag frá ásökunum um að erkibiskupinn í Lyon, Philippe Barbarin, hafi vísvitandi hylmt yfir kynferðisbrot kaþólsks prests gagnvart ungum drengjum.
Barbarin var sakaður um að hafa hylmt yfir með presti sem er sakaður um barnaníð í starfi og jafnvel að hafa veitt öðrum framgang í starfi þrátt fyrir að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart uppkomnum námsmönnum.
Við lok bráðabirgðarannsóknar á hlut Barbarins sagði saksóknarinn, Marc Cimamonti, að ekki hafi verið hægt að færa sönnur á að biskupinn hafi hylmt yfir kynferðisbrot innan kirkjunnar.
Barbarin hefur greint frá því að hann hafi árið 2007 fyrst frétt af því að presturinn, Bernard Preynat, hafi verið sakaður um að hafa beitt skátadrengi kynferðislegu ofbeldi á árum áður. Preynat var fyrst ákærður í janúar sl. eftir að fórnarlamb hans, sem presturinn á að hafa beitt ofbeldi á níunda áratug síðustu aldar, steig fram í fyrra. Í kjölfarið stigu fleiri fórnarlömb hans fram og greindu frá níðingsverkum prestsins sem enn var starfandi prestur innan kirkjunnar.
Barbarin bað fórnarlömbin afsökunar við messu í mars sl. Barbarin vísaði meðal annars í Frans páfa og sagði að sér bæri skylda til þess að biðjast persónulega afsökunar á illvirkjum sem prestar hafi framið. Kardínálinn sagði að sér bæri skylda til þess að biðjast afsökunar þrátt fyrir að hann hafi ekki verið í starfi kardínála þegar brotin sem um ræðir voru framin.
Barbarin sagði í dag að hann fagnaði niðurstöðu saksóknara og bar lof á störf þeirra sem hafa staðið í framvarðarsveit í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi.
Níðingsverk í skjóli kirkjunnar