„Þurftum bara tíma til að taka til“

Tjaldsvæðið nú um hádegi, eftir að búið var að taka …
Tjaldsvæðið nú um hádegi, eftir að búið var að taka til. ljósmynd/Bergsveinn Theodórsson

„Það er allt hreint og fínt eins og stóð til allan tímann. Við þurftum bara tíma,“ segir Bergsveinn Theodórsson, talsmaður hátíðarhalda á Flúðum um verslunarmannahelgina, um tjaldsvæðið þar í bæ. RÚV fjallaði um það í gær að mikið magn af rusli væri á svæðinu vegna slæmrar umgengni ungmenna sem þar gistu.

Bergsveinn segist sár yfir umfjölluninni, þar sem hún hafi birst áður en starfsfólk á svæðinu hafði hafist handa við að taka til. „Eðlilega kemur rusl eftir svona margt fólk en við þurftum bara að fá tíma til að taka til,“ segir hann. 

Hann segir umgengnina ekki hafa verið verri en á öðrum tjaldsvæðum á landinu og auðvelt hefði verið að segja sömu fréttir af þeim. Hann segir slíkan fréttaflutning þó skyggja á það hversu vel hafi gengið, en hátíðarhöldin hafi farið fram úr björtustu vonum. 

ljósmynd/Bergsveinn Theodórsson

Að sögn Bergsveins var mikil stemmning í bænum alla helgina, en frábært veður var á svæðinu. „Það var gríðarlega margt fólk. Á fimmtudaginn taldi lögreglan um átta þúsund manns og þá var ungmennatjaldsvæðið autt,“ segir hann. 

Þá hafi helgin gengið stóráfallalaust fyrir sig, en einn gisti þó fangageymslu lögreglunnar á Selfossi fyrir ölvun og óspektir á tjaldsvæðinu. „Það er auðvitað ýmislegt sem kemur upp þegar svona margt fólk kemur saman en það er svo mikill minnihluti sem er leiðinlegur á þessari hátíð miðað við hvað fólk er ánægt,“ segir Bergsveinn. 

Þá segir hann gærdaginn hafa verið stórkostlegan, en þá náðu hátíðarhöldin hápunkti. „Yfir daginn var mikið fjör þegar fjölskylduskemmtun var í gangi. Það var margt fólk sem fylgdist með furðubátakeppninni en það voru fjórtán furðulegir bátar sem tóku þátt,“ segir Bergsveinn. 

Gleðinni lauk svo með fjöldasöng við brennu í gærkvöldi og dansleik í félagsheimilinu þar sem Hreimur og Made-in Sveitin spiluðu fyrir dansi. „Gleðin sveif hreinlega yfir vötnum,“ segir Bergsveinn að lokum.

mbl.is