Rannsaka kynferðisbrot í Eyjum

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Eitt kynferðisbrot er til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir verslunarmannahelgina. Það var kært aðfaranótt mánudags og átti sér stað skömmu eftir miðnætti. Um tengda aðila er að ræða og fékk þolandi viðeigandi aðstoð. Sakborningur var handtekinn skömmu eftir að tilkynning barst lögreglu. Málið telst upplýst og rannsókn vel á veg komin.

Þetta kemur fram í færslu lögreglunnar í Eyjum á Facebook um þau mál sem komu upp hjá embættinu um helgina.

„Í tilefni af fréttaumfjöllun um kynferðisbrot á hátíðinni upplýsist að ekki var um kynferðisbrot að ræða í því tilviki þar sem maður var sleginn illa í andlit og höfuð heldur ótta við mögulegt brot,“ segir í færslunni.

Um 15 þúsund manns sóttu Þjóðhátíð í Eyjum um helgina. 27 lögreglumenn sinntu löggæslu á þremur lögreglubifreiðum auk 100 gæslumanna sem lúta stjórn lögreglu. Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinntu fíkniefnaeftirliti og höfðu sér til aðstoðar fíkniefnaleitarhunda sem eru í eigu embættis Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum og Fangelsismálastofnunar. Starfandi læknir var í dalnum auk heilbrigðisstarfsfólks, áfallateymis, barnaverndar og sjúkraflutningamanna og gengu allir sólarhringsvaktir.

Lögregla sinnti fjölmörgum verkefnum yfir helgina og leysti vel úr öllum verkefnum sem komu inn á borð hennar. Að mati lögreglu gekk löggæsla á Þjóðhátíð vel. Viðbragð í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd var gott og var fjölmörgum sinnt vegna mismunandi erfiðleika. „Það er miður að upp hafi komið afbrot en áhersla var á vönduð og fagleg vinnubrögð vegna þeirra þar sem rannsóknarhagsmunir og hagsmunir brotaþola voru settir í forgang,“ segir í færslu lögreglunnar. 

 

mbl.is