Opna ætti að nýju varnarstöð Bandaríkjamanna í Keflavík og hefja þaðan eftirlit með rússneskum kafbátum í Norður-Atlantshafi.
Þetta er meðal tillagna í nýrri skýrslu Center for Strategic & International Studies (CSIS), alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar á sviði öryggismála, í Washington, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.
Greint er frá skýrslunni á vefsíðu Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Þar segir að samkvæmt skýrslunni geti NATO og samstarfsríki bandalagsins ekki á þessari stundu brugðist með skömmum fyrirvara við stórauknum umsvifum Rússa neðansjávar á stórum hluta Norður-Atlantshafs og Eystrasalts.