Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri, vonast til að úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um löggæslukostnað vegna Síldarævintýrisins á Siglufirði verði leiðbeinandi fyrir bæjarhátíðir í landinu.
Ráðuneytið hefur til meðferðar kvörtun Fjallabyggðar vegna umsagnar embættis lögreglustjóra Norðurlands eystra út af umsókn um tækifærisleyfi fyrir Síldarævintýrið.
Fjallabyggð neitaði að greiða löggæslukostnað vegna hátíðarinnar. Í samkomulagi við lögregluna fyrir helgi kom fram að hann verði ekki greiddur nema æðra dómsvald eða dómstólar ákveði það.
Frétt mbl.is: Síldarævintýrið fær grænt ljós
„Af því að það varð samkomulag um fyrirkomulag á greiðslu þá erum við bara rólegir og bíðum eftir úrskurðinum. Ef við höfum rétt fyrir okkur borga þeir og ef þeir hafa rétt fyrir sér fáum við þetta ekki greitt,“ segir Daníel.
„Vonandi verður þetta leiðbeinandi úrskurður um heimild lögreglustjóra almennt til þess að innheimta löggæslukostnað fyrir svona bæjarhátíðir. Það vantar að reglurnar séu skýrari hvað þetta snertir.“
Aðspurður segir hann lögregluna ekkert fúla út í bæjarstjórn Fjallabyggðar vegna málsins. „Það er bara sjálfsagt mál ef menn eru ekki sammála að fá úrskurð í því.“
Daníel segir að Síldarævintýrið hafi gengið vel núna um helgina þó svo að færra fólk hafi verið en oft áður. „Það er alltaf eitthvað að gera, þótt það hafi ekki verið einhver stór mál sem komu upp.“
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir að úrskurði Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins verði hlítt „með öllum þeim fyrirvörum sem þar eru“.
Hann veit ekki hvenær úrskurður verður kveðinn upp. „Málið er til meðferðar hjá ráðuneytinu. Við höfum ekkert heyrt meira af því.“