Karlmaður sem hefur ítrekað brotið nálgunarbann og brottvísun af heimili stjúpdætra sinna og móður þeirra, sem jafnframt er eiginkona mannsins, hélt áfram að brjóta nálgunarbannið með því að hringja ítrekað í þær úr fangelsi þar sem hann situr nú í gæsluvarðhaldi. Þá fékk hann vinkonu sína til að bera handskrifuð bréf frá sér til kvennanna þriggja og sett daglega í póstkassa þeirra með undirskriftinni „X“.
Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um að framlengja gæsluvarðhaldi yfir manninum til 25. ágúst, en maðurinn er einnig grunaður um að hafa í áraraðir brotið gegn mæðgunum með ítrekuðum kynferðisbrotum, líkamlegu ofbeldi og hótunum. Var maðurinn ákærður um miðjan síðasta mánuð og málið þingfest fyrir mánaðarmót.
Mbl.is hefur fjallað ítarlega um mál mannsins fyrr í sumar, en það vakti meðal annars umræðu um stöðu kvenna sem eru fastar í vítahring árum saman, þar sem eiginmenn þeirra komast ítrekað upp með að brjóta nálgunarbann.
Frétt mbl.is: Grunaður um kynferðisafbrot í áraraðir
Frétt mbl.is: Fastar í vítahringnum árum saman
Frétt mbl.is: Ítrekuð brot á nálgunarbanni erfið
Frétt mbl.is: Áfram í haldi vegna brota gegn mæðgum