Tyrkneskir lögreglumenn réðust inn á skrifstofu tækni- og vísindaráðs Tyrklands, Tubitak, í héraðinu Kocaeli í morgun og handtóku þar fjölda manns. Aðgerðin er liður í pólitískum hreinsunum Recep Tayyip Erdogans, forseta Tyrklands, í kjölfar valdaránstilraunarinnar misheppnuðu í landinu um miðjan júlímánuð.
Vísindaráðið fjármagnar rannsóknarverkefni í háskólum landsins sem og í einkageiranum, en yfir 1.500 vísindamenn starfa á vegum þess.
Tyrknesk stjórnvöld segja að hinir handteknu séu grunaðir um að styðja tyrkneska klerkinn Fethullah Gülen, en Erdogan sakar hann um að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni. Gülen hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum frá árinu 1999.
Yfir sextíu þúsund manns, þar á meðal hermenn, dómarar, kennarar og aðrir opinberir starfsmenn, hafa verið handteknir eða reknir úr starfi í kjölfar þess að valdaránstilraunin var brotin á bak aftur.
Mannréttindasamtök óttast að Erdogan hafi notað tilraunina sem átyllu til þess að styrkja stöðu sína og bæla niður alla andstöðu.