Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, hvatti í morgun tyrknesk stjórnvöld til þess að virða réttarríkið. Jagland, sem er í opinberri heimsókn í landinu, er æðsti ráðamaður Evrópusambandsins til þess að heimsækja Tyrkland eftir að valdaránstilraunin var reynd um miðjan júlímánuð.
Hann mun funda með hátt settum tyrkneskum embættismönnum og ráðamönnum á næstu dögum.
Jagland ræddi við blaðamenn í morgun og sagðist þá hafa skilning á því að tyrknesk stjórnvöld þyrftu að láta þá sem stóðu að baki valdaránstilrauninni svara til saka. Hins vegar þyrftu ráðamenn að hafa varann á og gæta hófs.
Um sextíu þúsund Tyrkir, þar á meðal hermenn, lögreglumenn, kennarar og dómarar, hafa verið handteknir eða reknir úr starfi eftir valdaránstilraunina. Eru þeir grunaðir um að tengjast hreyfingu tyrkneska klerksins Fethullah Gülens, sem tyrknesk stjórnvöld telja að hafi skipulagt tilraunina.
Gülen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, hefur hins vegar vísað ásökununum á bug.
Stjórnmálaskýrendur telja líklegt að tyrkneskir ráðamenn muni segja Jagland að þeir fái ekki nægilegan stuðning frá Vesturveldunum, bandamönnum sínum, í baráttunni gegn valdaræningjunum.
Eitt af hlutverkum Evrópuráðsins er að fylgjast með stöðu mannréttindamála í aðildarríkjum sínum, þar á meðal Tyrklandi.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, tók á móti Jagland í morgun. Jagland sagði að valdaránstilraunin hefði verið „svívirðileg“. Það hefði komið Evrópubúum á óvart hve margir óvildarmenn tyrkneskra stjórnvalda hefðu starfað innan stjórnkerfisins þar.
„Við sjáum þörfina á því að hreinsað verði til. En það er mikilvægt að það verði gert í samræmi við réttarríkið og kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu,“ sagði hann.
Hann mun jafnframt hitta Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, Binali Yildirim forsætisráðherra, dómsmálaráðherra landsins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar.