Sakar Austurríkismenn um rasima

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, kallaði í dag Austurríki „höfuðborg róttæks rasisma“ eftir að Christian Kern, kanslari Austurríkis, hvatti ráðamenn Evrópusambandsins til þess að slíta aðildarviðræðum sambandsins og Tyrkja.

Cavusoglu sagðist í samtali við tyrknesku sjónvarpsstöðina TGRT Haber í dag vísa öllum ásökunum Kern um pólitískar hreinsanir í Tyrklandi í kjölfar misheppnuðu valdaránstilraunarinnar á bug.

„Austurríski kanslarinn ætti fyrst að líta til síns eigin lands. Rasismi er óvinur mannréttinda og gilda og í dag er Austurríki höfuðborg róttæks rasisma,“ segir Cavusoglu.

Kern sagðist á miðvikudag ætla að ræða við leiðtoga Evrópusambandsins og hvetja þá til þess að slíta aðildarviðræðum sambandsins við Tyrki. Vísaði hann sérstaklega til stjórnmála- og efnahagsástandsins í landinu. Tyrknesk stjórnvöld þyrftu að hafa í heiðri virðingu fyrir lýðræði.

Aðildarviðræðurnar hafa gengið hægt síðan þær hófust árið 2005. Einungis hefur verið lokið við einn samningskafla af 35.

Sebastian Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis, gagnrýndi ummæli tyrkneska utanríkisráðherrans harðlega og hvatti stjórnvöld í Ankara til þess að gæta orða sinna og gjörða.

Leiðtogar Evrópuríkja hafa lýst yfir áhyggjum sínum af pólitískum hreinsunum Recep Tayyip Erdogans, forseta Tyrklands, í kjölfar valdaránstilraunarinnar misheppnuðu um miðjan júlímánuð. Erdogan hefur meðal annars hótað að lífláta þá sem tóku þátt í tilrauninni.

Samskiptin á milli ríkjanna tveggja, Tyrklands og Austurríkis, hafa verið nokkuð stirð að undanförnu. Austurrísk stjórnvöld boðuðu til að mynda tyrkneska sendiherrann á sinn fund og kröfðust skýringa á tengslum stjórnvalda í Ankara við mótmæli í Vínarborg til stuðnings Erdogan.

mbl.is