Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um Kvennathvarf, segist þekkja dæmi þess að menn haldi áfram að hrella konur þrátt fyrir að vera komnir í fangelsi, meðal annars með því að hringja í þær eða vera í sambandi við þær á netinu.
„Við þekkjum dæmi þess að konur þori ekki annað en að heimsækja mennina þegar þeir eru komnir inn af ótta við það sem gerist seinna,“ segir Sigþrúður.
„Við þekkjum dæmi þess að þeir haldi völdum yfir konunni þótt þeir séu komnir í fangelsi. Stundum í gegnum þriðja aðila. Þeir nota öll brögð sem þeir kunna. Þeim kannski fækkar aðeins þegar þeir eru í fangelsi en það ótrúlegt hvað þeim tekst samt oft að hafa samband,“ segir hún.
Frétt mbl.is: Fastar í vítahringum árum saman
Karlmaður hefur ítrekað brotið nálgunarbann gegn mæðgum með því að hringja í þær úr fangelsinu. Hann fékk einnig vinkonu sína til að bera handskrifuð bréf frá sér til kvennanna þriggja og setja daglega í póstkassa þeirra undir yfirskriftinni „X“. Hæstiréttur staðfesti nýlega úrskurð héraðsdóms um að framlengja gæsluvarðhald yfir manninum til 25. ágúst.
Frétt mbl.is: Braut ítrekað nálgunarbann úr fangelsi
Fangelsismálastjóri segir að ef einhverjir vilji ekki að hringt sé í þá úr fangelsi sé hægt að óska eftir því að ekki sé hringt í númerið þeirra. Aðspurð telur Sigþrúður að allur gangur sé á því hvort konur viti að hægt sé að láta loka á hringingar úr fangelsum. Þótt þær viti það séu margar of óttaslegnar til að nota þann valkost.
„Þær vita að fangelsisvist er tímabundin og hótanir hafa oft miðast af því að ef þær svara ekki sé hægt að senda einhvern annan á þær eða framkvæma hótanirnar seinna þegar þeir eru sjálfir komnir út. Tökin eru oft svo mikil,“ greinir hún frá.
Frétt mbl.is: Geta lokað á símtöl úr fangelsum
Hún segir það bagalegt að menn geti haldið áfram að hrella konur þrátt fyrir að vera komnir á bak við lás og slá. „Þetta sýnir kannski eðli þessa ofbeldis sem er verið að beita að það er erfitt að ná höndum yfir það og enn og aftur eru það konurnar sem eiga að blokkera símana til að þeir geti ekki hringt. Enn og aftur er það brotaþolinn sem á að verjast, líka þegar maðurinn er kominn í fangelsi.“
Fangar hafa almennt séð rétt til að hringja úr fangelsissímum og númerin sem þeir hringja í eru ekki könnuð sérstaklega, samkvæmt fangelsismálastjóra „Það er spurning hversu langt sá réttur á að ná,“ segir Sigþrúður. „Mér finnst þetta ástand að jafnvel í fangelsum sé ekki hægt að koma höndum yfir það að menn haldi áfram að hóta og hrella brotaþola, það er auðvitað alveg óþolandi.“