Mannhaf í Istanbúl

AFP

Fleiri hundruð þúsund stuðningsmenn forseta Tyrklands, Receps Tayyips Erdoğans, hafa safnast saman á götum úti í Istanbúl til að sýna forsetanum stuðning í verki. Undanfarnar þrjár vikur hafa stuðningsmenn hans verið duglegir að fara út á götur borga landsins til þess að sýna samstöðu með forsetanum. Frá því valdarán mistókst í Tyrklandi hafa 273 hið minnsta verið drepnir, þar á meðal 34 sem sakaðir eru um að hafa undirbúið valdaránið. 

Um fimmtán þúsund lögreglumenn eru á vakt en í einhverjum fjölmiðlum hefur verið talað um að allt að 3,5 milljónir manna muni mæta á stuðningssamkomuna sem hófst klukkan 14. 

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa farið fram á það við stjórnvöld í Bandaríkjunum að þau framselji íslamska klerkinn Fethullah Gülen sem þau segja að hafi staðið fyrir valdaránstilrauninni. Gülen er í útlegð í Bandaríkjunum.

AFP
Gríðarlegur mannfjöldi sýnir forseta Tyrklands stuðning í Istanbul.
Gríðarlegur mannfjöldi sýnir forseta Tyrklands stuðning í Istanbul. AFP
mbl.is