Stjórnvöld í Íran hafa staðfest að kjarnorkuvísindamaðurinn Shahram Amiri hafi verið tekinn af lífi fyrir að hafa veitt óvininum háleynilegar upplýsingar.
BBC greindi frá því í gærkvöldi að fjölskyldan hafi fengið lík Amiri í hendur og á hálsi hans hafi verið för eftir reipi þannig að allt benti til þess að hann hafi verið tekinn af lífi.
Shahram Amiri var hengdur fyrir að hafa upplýst Bandaríkin um þjóðarleyndarmál, segir upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins í Íran, Gholamhossein Mohseni Ejeie, í viðtali við Mizan Online-fréttavefinn.
Amiri, sem fæddist árið 1977, hvarf í pílagrímaför til Mekka árið 2009 en birtist óvænt í pakistanska sendiráðinu í Washington ári síðar. Hann sagði við komuna heim til Írans að honum hafi verið haldið í Bandaríkjunum í meira en ár eftir að hafa verið rænt af tveimur bandarískum leyniþjónustumönnum í borginni Meina. Leyniþjónustumennirnir töluðu báðir farsi. Ejeie segir að Amiri hafi haft aðgang að leynilegum upplýsingum og hann hafi komið sér í samband við helsta óvin ríkisins, Bandaríkin, og gefið þeim upplýsingar um þjóðarleyndarmál.
„Réttarhöldin yfir Shram Amiri voru í samræmi við lög og að viðstöddum lögmanni hans. Hann áfrýjaði dauðadómi yfir sér en hæstiréttur staðfesti hann að vel athuguðu máli,“ segir Ejeie. hann þvertekur fyrir að það sé rétt sem fjölskylda vísindamannsins hefur haldið fram að Amiri hafi verið dæmdur í tíu ára fangelsi.
Frétt mbl.is: Tóku vísindamann af lífi