Þakkaði Pútín fyrir stuðninginn

Vladimír Pútín og Recep Erdogan hittust í St. Pétursborg í …
Vladimír Pútín og Recep Erdogan hittust í St. Pétursborg í Rússlandi í dag. AFP

Recep Erdogan Tyrklandsforseti heimsótti í dag Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í St. Pétursborg. Um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn Erdogans eftir misheppnaða valdaránstilraun tyrkneska hersins gegn honum í síðasta mánuði. 

Erdogan hóf samræður þeirra á að þakka Pútín fyrir stuðninginn í kjölfar valdaránstilraunarinnar og sagði: „símtal þitt strax í kjölfarið á valdaránstilrauninni var afskaplega vel þegið“.

Samband Tyrklands og Rússlands hefur áður verið stirt og náði stirðleikinn hámarki í nóvember í fyrra þegar Tyrkir skutu niður rússneska sprengjuvél við sýrlensku landamærin.

Nú virðist hins vegar sem samband þeirra Erdogans og Pútíns sé orðið gott og áður en Erdogan hélt af stað til Rússlands talaði hann um Pútín sem vin sinn, og sagðist hann vilja bæta samskipti ríkjanna tveggja.

„Heimsóknin markar tímamót í samskiptum okkar og við ætlum að byggja samstarf okkar aftur upp frá grunni,“ sagði Erdogan við rússneska fjölmiðla í dag.

Pútín sagðist vilja aftur hefja viðskipti við Tyrkland eftir að Rússar settu viðskiptabann á Tyrki í kjölfar árásarinnar á rússnesku sprengjuvélina.

„Við ætlum að ræða alla þætti samstarfs, bæði efnahagslega þætti og sameiginlega baráttu gegn hryðjuverkum,“ er haft eftir Pútín í rússneskum fjölmiðlum. 

Sjá frétt BBC.

Frá fundi þeirra í dag.
Frá fundi þeirra í dag. AFP
mbl.is